Þeir sem greiddu atkvæði í verðlaunasamkeppni Critics' Choice í Hollywood gátu ekki gert upp á milli leikkvennanna Meryl Streep og Söndru Bullock þegar kom að því að velja bestu leikkonuna. Þær fengu því báðar verðlaunin á verðlaunahátíð um helgina.
Streep fékk verðlaunin fyrir myndina Juliu og Bullock fyrir myndina The Blind Side. Þær mættu báðar til að taka við verðlaunum sínum.
Stríðsmyndin The Hurt Locker var valin besta kvikmyndin og Kathryn Bigelow var valin besti leikstjórinn. Bigelow leikstýrði á sínum tíma myndinni K-19, The Widowmaker, sem Sigurjón Sighvatsson framleiddi og Ingvar E. Sigurðsson lék m.a. í. Þá leikur Jeremy Renner aðalhlutverkið í myndinni en Renner lék í myndinni Little Trip to Heaven, sem Baltasar Kormákur gerði fyrir nokkrum árum.
Myndin Avatar, sem James Cameron gerði, fékk fimm verðlaun. Myndin var m.a. valin besta hasarmyndin og hún var einnig verðlaunuð fyrir tæknibrellur, klippingu, hljóð og kvikmyndatöku. Cameron og Bigelow voru gift um tíma.
Jeff Bridges var valinn besti leikarinn fyrir myndina Crazy Heart. Besti leikari í aukahlutverki var valinn Christoph Waltz fyrir Inglourious Basterds og besta leikkonan var valin Mo'Nique fyrir Precious.
Quentin Tarantino fékk verðlaun fyrir besta frumsamda handritið í myndinni Inglourious Basterds og leikararnir í myndinni, sem voru m.a. Brad Pitt, Eli Roth og Michael Fassbender, voru valdir besti leikhópurinn.