Handritshöfundar breska sjónvarpsþáttarins Doctor Who á níunda áratugnum höfðu það meginmarkmið að velta ríkisstjórn Margrétar Thatcher úr sessi. Þetta kemur fram í viðtali við Sylvester McCoy í Sunday Times en hann var ráðinn til þess að leika doktorinn í þessari vinsælu vísindaskáldskaparseríu árið 1987 eða þremur mánuðum eftir að Thatcher vann sinn þriðja kosningasigur.
Fram kemur í viðtalinu að þeir sem störfuðu við þáttinn töldu rétt að nota vinsældir hans til þess að grafa undan stöðu Thathcers í breskum stjórnmálum. Hann segir ennfremur að það hafi verið viðtekin skoðun þáttagerðarmannanna á þessum tíma að Thatcher væri mun ógnvænlegri en þau skrímsli sem doktorinn hafði þurft að glíma við í þáttunum.