Halda þarf tónlistarlífinu gangandi

Greipur Gíslason stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.
Greipur Gíslason stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.

Tónlistarhátíðin Við Djúpið er að jafnaði haldin um sumarsólstöður, þegar sól er hæst á lofti, en hún fer nú fram dagana 17.-22. júní á Ísafirði. Hátíðin var fyrst haldin árið 2003, með stuðningi fjölmargra aðila, og hefur skipað sér sess fyrir vestan.

„Ég held að það sé óhætt að segja að koma þýsku kammersveitarinnar Orchester im Treppenhaus sé hápunktur hátíðarinnar en þarna eru á ferðinni mjög flottir og vanir kammerspilarar. Sveitin kemur fram tvisvar sinnum á hátíðinni sem hljómsveit í heild, bæði á sólstöðum, þar sem þau spila „Vetrarferðina“, og svo á lokatónleikum hátíðarinnar. Á fyrstu þrennu kvöldtónleikunum, sem eru 17., 18. og 19. júní, spila svo mismunandi hópar úr hljómsveitinni kammertónlist. Það er svo ísfirska sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir sem verður í förumannshlutverkinu í „Vetrarferðinni“ en hún hefur áður komið fram með hljómsveitinni ytra,“ segir Greipur Gíslason, stjórnandi hátíðarinnar, spurður að því hverju gestir hennar megi búast við í ár.

Þróast í alþjóðlega átt

Segist Greipur sakna þess hérlendis að sjá ekki meira framboð af alþjóðlegum kammertónleikum og því hafi skipuleggjendur hátíðarinnar lagt upp með að bæta úr því.

„Við erum með Sinfóníuhljómsveitina, og þar eru alþjóðlegar stórstjörnur að koma nánast í hverri einustu viku að spila með hljómsveitinni einleik eða að stjórna, og svo erum við með fullt af flottum kammerröðum á Íslandi en þetta eru oft bara mjög flottir íslenskir tónlistarmenn. Það er bara alls ekki mikið framboð af kammerviðburðum með erlendum gestum og hvað þá úti á landi. Þess vegna höfum við reynt að leita leiða til að vera með alþjóðlega kammertónleika. Ég held að það sé svona það sem tónleikagestir okkar megi setja sig í stellingar fyrir. Að því sögðu tek ég þó fram að á föstudeginum, 21. júní, eru á dagskrá hátíðarinnar tónleikar með nýrri íslenskri kammertónlist, en þar er mjög frambærilegur strengjakvartett úr Cauda Collective á ferð.“ Inntur eftir því hvort hátíðin hafi þá kannski þróast aðeins í gegnum árin í alþjóðlega átt segir Greipur svo vera. „Hátíðin var haldin ellefu sinnum í röð fyrst en lagðist eiginlega í dvala eftir 2013 þar til við tókum hana aftur upp árið 2022. Hún hefur kannski helst þróast aðeins í þessa alþjóðlegu átt því þegar hún var að byrja þá var hún frekar lókal. Það voru íslenskir kennarar á henni og íslenskir listamenn að koma fram, nöfn í íslenska tónlistarlífinu sem margir þekkja,“ segir hann og bætir því við að upp úr 2008 hafi þau byrjað að leita leiða til þess að fá erlenda gesti til að koma og kenna. „Var það helst gert svo íslenskir nemendur fengju tækifæri til að læra af öðrum kennurum en þeim sem þau eru vön að vera hjá allt árið. Ég myndi því halda að hátíðin hafi þróast í þessa átt að vera einhvers konar brú á milli íslensks og erlends tónlistarlífs en um leið hefur hún alltaf verið frekar trú upprunanum. Hugmyndin er að hafa alþjóðlega eða íslenska kennara sem halda masterklassa og fá svo þessa kennara til að koma fram á tónleikum með ýmsum hætti. Það hefur verið rauði þráðurinn sem við höfum haldið mjög fast í.“

Strengjakvartettinn Cauda Collective býður upp á nýja íslenska kammertónlist á …
Strengjakvartettinn Cauda Collective býður upp á nýja íslenska kammertónlist á hátíðinni.

Viðstöðulaust verkefni

Aðspurður segir Greipur undirbúning hátíðarinnar viðstöðulausa vinnu. „Það er engin vika á árinu þar sem ekki er verið að hugsa eitthvað um þetta. Til dæmis það að prógrammera, að hafa samband við listamennina og fleira, tekur auðvitað ákveðinn tíma. Samhliða því að skipuleggja hátíðina í ár lögðum við til að mynda drögin að dagskránni fyrir næsta sumar. Þannig að það er í rauninni aldrei pása. Þetta er viðstöðulaust verkefni ef vel á að vera.“

Talið berst í kjölfarið að því hversu mikilvæg hátíð sem þessi sé í raun fyrir íslenskt tónlistarlíf og þá einkum og sér í lagi fyrir tónlistarbæinn Ísafjörð. „Þegar kemur að íslensku tónlistarlífi þá er sama hvað fólk er að gera og hvar á landinu því ef það nær einhverri athygli þá setur það viðmið fyrir aðra. Það er hefð fyrir því hér á landi á nokkrum stöðum að vera með sumartónleikahátíðir eins og þekkist víða um heim. Þetta er ekki bara gert í kynningarskyni út fyrir landsteinana heldur líka til að halda tónlistarlífinu gangandi, að það leggist ekki í dvala yfir sumartímann,“ segir Greipur og tekur fram að því sé eins farið með tónlistarfólk og íþróttafólk, það þurfi að halda sér við og fá ný tækifæri.

„Hvað varðar tónlistarbæinn Ísafjörð skiptir hátíð sem þessi rosalega miklu máli, hvort sem heimamenn hafa áhuga á því að sækja tónleikana eða ekki. Mér fyndist ekki koma til greina að hafa ekki sumartónleikaröð á Ísafirði, sérstaklega ef þetta á að vera vörumerki sem Ísfirðingar vilja viðhalda. Það er önnur tónleikahátíð um páskana, Aldrei fór ég suður, hún skiptir líka máli því það þarf að sýna alla flóruna. En svo má heldur ekki gleyma því að á Ísafirði er glæsileg aðstaða. Þar er frábær tónlistarskóli, frábært skólahús sem hentar alveg gríðarlega vel fyrir svona hátíð, og aðrir tónleikasalir sem við nýtum líka. Þannig að það væri smá dapurt að láta það standa autt yfir sumarið.“

Boðið upp á spennandi nýjung

Þá segir Greipur hátíðina ávallt vel sótta en skipta megi tónleikagestum hátíðarinnar í þrjá hópa; heimamenn, hátíðarsirkusinn, nánar tiltekið listamennina, nemendur og gesti þeirra, og að lokum almenna ferðamenn. „Við erum bæði að selja pakkaferðir til Íslands í samvinnu við litla ferðaskrifstofu á Ísafirði, þannig að það eru að koma ferðamenn frá Bandaríkjunum til að vera með okkur alla vikuna, og eins erum við að selja Íslendingum annars konar pakka, svokallaða langa helgi fyrir vestan, þar sem boðið er upp á tónleikahald en einnig aðra spennandi viðburði.“ Á Greipur þar meðal annars við einstaka matarveislu og að gestir geti siglt með tónlistarfólki á uppskeruhátíð út í Vigur. „Við teljum að dagskrá hátíðarinnar, Ísafjörður og Vestfirðir eigi meira inni hvað varðar menningarferðamennsku svo til þess að gera þessa heimsókn enn einstakari þá ákváðum við að bæta aðeins í og skapa fleiri viðburði í kringum tónleikana,“ segir Greipur og bætir við að lokum að um sé að ræða spennandi nýjung. „Ég vona bara að við fáum gott veður en við höfum verið alveg ótrúlega heppin með veður á þessari hátíð í áraraðir svo ég hlýt að geta spáð því að það rætist.“

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna á heimasíðu hennar, viddjupid.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að standa á rétti þínum í dag en gæta þess um leið að gera ekki meira úr hlutunum en nauðsyn krefur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að standa á rétti þínum í dag en gæta þess um leið að gera ekki meira úr hlutunum en nauðsyn krefur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir