Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, best þekktur undir listamannsnafninu Auður, hefur sent frá sér lagið Peningar, peningar, peningar. Lagið er aðgengilegt á streymisveitunni Spotify.
Texti lagsins er beitt ádeila á neysluhyggju samtímans og skýtur tónlistarmaðurinn föstum skotum að yfirvöldum í opnunarlínu lagsins:
„Ég kaupi landi fleiri fermetra, set strák í hjólastól á götuna.”
Auðunn hefur undanfarin tvö ár búið í Los Angeles og starfað sem tónlistarmaður og hljóðupptökustjóri. Þar hefur hann meðal annars verið hluti af beinu streymi Twitch-stjörnunnar Kai Cenat og unnið tónlist fyrir listamenn á borð við Social House, Prince Ndour, Adelina, YSA og ChiChi.