Í litlum kofa, hátt upp til fjalla, situr Völundur gamli, smiðurinn sem sér um að smíða allar gjafirnar sem jólasveinarnir færa börnunum á jólunum. Eftir að síðustu sveinarnir eru farnir til byggða birtast óvæntir gestir, tröllabörnin Þusa og Þrasi og sjálfur jólakötturinn. Völundur tekur vel á móti þeim og saman rifja þau upp söguna af fæðingu Jesú. Þeim þykir sagan svo skemmtileg að þau ákveða að leika hana saman.
Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja 10 ára
Smiður jólasveinanna var fyrst sýndur fyrir jólin 1992 og naut þá þegar mikilla vinsælda. Leikritið var síðan gefið út á geisladiski fyrir jólin 1993. Leikstjóri sýningarinnar er Pétur Eggerz, sem einnig hannaði leikmynd ásamt Bjarna Ingvarssyni, tónlist gerði Ingvi Þór Kormáksson og búningahönnuður Helga Rún Pálsdóttir. Leikarar eru Bjarni Ingvarsson, Aino Freyja Järvelä, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz