um merkin

EINKENNI
Lykilorð: Metnaður
Pláneta: Satúrnus
Höfuðskeppna: Jörð
Litur: Svartur, dökkgrár
Málmur: Blý
Steinar: Svartur ónyx, obsídían
Líkamshluti: Hné, liðamót, húð, bein
Frægar steingeitur Davíð Oddsson, Nicolas Cage, Ólafur Skúlason, Nixon, Henri Matisse, Janis Joplin, Mao, Bjarni Felixson, Anthony Hopkins og Denzel Washington.
STEINGEIT STEINGEIT
Steingeitin rennur oftast saman við fjöldann, því hún er bæði hógvær í klæðaburði og framkomu. Steingeitur skeyta lítið um tískufyrirbæri og klæðast oft íhaldssömum, dökkum fötum úr vönduðu efni, jafnvel þegar þær fara í samkvæmisskrúðann. Þær eru iðjusamar og þægilegar í viðmóti, vinna skipulega að langtíma markmiðum og stefna að því að öðlast viðurkenningu og virðingu fyrir erfiði sitt. Steingeitin er þolinmóð og yfirleitt metnaðargjörn, einræn og seintekin, en trygg vinum sínum og fjölskyldu og mjög áreiðanleg í öllum samskiptum. Veraldleg gæði, vegtyllur og vald skipta Steingeitina miklu máli og hún er íhaldssöm á umhverfi sitt og á bágt með að sætta sig við breytingar. Steingeitinni lætur best að vinna þar sem hún getur hækkað í stöðu, en ef hún starfar innan stjórnmálaflokks, hentar henni betur að aðrir standi í sviðsljósinu á meðan hún hefur sjálf töglin og hagldirnar á bakvið tjöldin. Í íþróttum heillast hún yfirleitt af greinum, þar sem hún þarf að sigrast á erfiðleikum, t.d. fjallgöngum eða skíðagöngum. Steingeitinni hættir til að halda óþarflega mikið aftur af tilfinningum sínum og sjálfsagi hennar og sjálfsafneitun gengur oft út í öfgar. Hún ætti að reyna að vera næmari á þarfir annarra og tilfinningar og losa sig við stífni og óþarfa hlédrægni, en það stafar oft af erfiðri æsku.