Það var einróma samþykkt á fundi fararstjórnar ÍSÍ í Aþenu í gærkvöldi að Guðmundur Hrafnkelsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, yrði fánaberi Íslands við setningarhátíðina á morgun.
"Guðmundur er að taka þátt í sínum þriðju Ólympíuleikum. Hann er aldursforseti íslensku keppendanna hérna á leikunum, verður fertugur á næsta ári, og hann mun væntanlega ná þeim áfanga að leika sinn 400. landsleik á næstu dögum," sagði Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, í samtali við Morgunblaðið eftir fundinn í gær.