Kjarnasamrunaofni valinn staður í Frakklandi

Inn á þessa mynd hefur verið teiknaður væntanlegur kjarnasamrunaofn, og …
Inn á þessa mynd hefur verið teiknaður væntanlegur kjarnasamrunaofn, og nærliggjandi byggingar, til viðbótar aðstöðu sem þegar er fyrir hendi í Cadarache. AP

Alþjóðlegt fé­lag hef­ur valið ofni sem nota á til til­rauna með kjarna­samruna stað í Frakklandi, skammt frá Aix-en-Provence, að því er full­trúi Evr­ópu­sam­bands­ins greindi frá í dag. Mark­mið til­raun­anna er að búa til hreina orku sem aldrei geng­ur til þurrðar.

Ákvörðun um staðsetn­ing­una var tek­in á lokuðum fundi í Moskvu, en aðilar að fé­lag­inu eru Evr­ópu­sam­bandið, Jap­an, Banda­rík­in, Suður-Kórea, Rúss­land og Kína. Deil­ur hafa staðið milli þeirra um staðsetn­ingu til­rauna­ofns­ins, enda mikið í húfi: Marg­ir millj­arðar í rann­sókna­styrki, upp­bygg­ing fyr­ir millj­arða og hátt í 100.000 ný störf.

Jap­an­ir, Banda­ríkja­menn og Suður-Kór­eu­menn vildu að ofn­inn yrði byggður í Jap­an, en Rúss­ar, Kín­verj­ar og Evr­ópu­sam­bandið að hann yrði staðsett­ur í Ca­darache í Suður-Frakklandi, og varð það úr.

Með ofn­in­um (In­ternati­onal Thermonuc­le­ar Experi­mental Reactor, ITER) á að sýna fram á að með kjarna­samruna, sem fel­ur í sér beisl­un sams­kon­ar orku og hit­ar sól­ina, verði hægt að leggja af brennslu jarðefna­eldsneyt­is, sem meng­ar and­rúms­loftið, og nota í stað hreina orku. Við kjarna­samruna, sem fel­ur í sér að tveir létt­ir kjarn­ar eru sam­einaðir til mynd­un­ar eins þungs og þar með losuð mik­il orka, mynd­ast eng­ar gróður­húsaloft­teg­und­ir og aðeins lítið magn geisla­virks úr­gangs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert