Mourinho segist ætla að hætta hjá Chelsea

Jose Mourinho. Yfirgefur hann Chelsea í sumar?
Jose Mourinho. Yfirgefur hann Chelsea í sumar? AP

Forráðamenn Chelsea neita að tjá sig um ummæli sem höfð eru eftir knattspyrnustjóranum Jose Mourinho í bresku blöðunum í dag. Blöðin greina frá því að Mourinho hafi tjáð nánum vini sínum að hann ætlaði að hætta hjá Chelsea eftir tímabilið.

Fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að ósætti væri á milli Mourinho við eigandann Romans Abramovich og framkvæmdastjórann Peter Kenyon og gerðu fjölmiðlar því skóna að Portúgalinn myndi yfirgefa Englandsmeistarana í sumar og Hollendingurinn Guus Hiddink landsliðsþjálfari Rússa tæki við starfi hans.

Cesar Peixoto sem lék undir stjórn Mourinho hjá Porto en leikur nú með Espanyol segir í viðtali við fjölmiðla í Barcelona í dag að Mourinho sé að leita eftir húsnæði í Mílanó en Mourinho hefur sterklega verið orðaður við Inter Mílanó og eins Real Madrid.

Enskir fjölmiðlar, sem eyða miklu plássi í umfjöllun um Chelsea og Mourinho í dag, segja að Portúgalinn sé afar ósáttur við hversu miklu Frank Arnesen er farinn að ráða en Arnesen sem er titlaður yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu gekk manna lengst fram að selja William Gallas til Arsenal sem féll Mourinho afar illa í geð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert