Karlmenn séu vakandi fyrir krabbameinseinkennum

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðsráðherra opnaði vefinn með formlegum hætti.
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðsráðherra opnaði vefinn með formlegum hætti.

Karlmenn og krabbamein er yfirskrift tveggja vikna átaks  Krabbameinsfélags Íslands sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra ýtti formlega úr vör í gær. Við sama tækifæri var opnaður vefur átaksins á slóðinni www.karlmennogkrabbamein.is. Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til sérstaks átaks um karlmenn og krabbamein hér á landi.

Fram kemur í tilkynningu að auk opnunar vefsins verði bæklingi um karlmenn og krabbamein dreift á öll heimili í landinu í þessari viku og auglýsingar birtar í fjölmiðlum og víðar. Teiknimyndafígúran Steinar er í aðalhlutverki og fræðir karla um einkenni krabbameina og fleira þeim tengt með húmorinn að vopni.

Einkennistákn átaksins er þrílit slaufa; blá, hvít og fjólublá, en litirnir tákna þrjú algengustu krabbamein í körlum; blöðruhálskirtils-, lungna- og ristilkrabbamein. Slaufan fer í sölu á föstudag og hægt verður að kaupa hana hjá Póstinum, Frumherja, Sambíóunum, Kaffitári, verslunum Eymundsson og ýmsum öðrum sölustöðum um land allt.

Að meðaltali greinast árlega um 630 íslenskir karlar með krabbamein, þar af 190 með krabbamein í blöðruhálskirtli, 64 með lungnakrabbamein og 51 með ristilkrabbamein. Horfur þeirra sem greinast með krabbamein á Íslandi eru almennt góðar en þegar menn eru komnir yfir fertugt aukast líkurnar á því að fá krabbamein. Það þýðir að þeir þurfa að vera vakandi fyrir þeim einkennum sem lýst er í bæklingnum. Ef einhver þeirra koma fram og eru ekki horfin eftir þrjár til fjórar vikur ættu þeir að leita læknis, segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert