Ganga og synda á pólinn

Pen Hadow pólfari
Pen Hadow pólfari

Breskur leiðangur er nú á leið til Norðurpólsins. Tilgangurinn er að mæla bráðnun hafíss á norðurheimskautssvæðinu. Heimskautakönnuðurinn Pen Hadow og tveir félagar hans voru settir niður á ísinn tæplega 1.100 km norður af ströndum Kanada á laugardagskvöld, að sögn BBC.

Leiðangurinn á um þúsund kílómetra göngu fyrir höndum. Á leiðinni ætla leiðangursmennirnir að mæla þykkt hafíssins með íssjá. Þetta verður ítarlegasta könnunin á þykkt ísbreiðu norðurskautssvæðisins til þessa. Reiknað er með að leiðangurinn nái á Norðurpólinn í maí.

Pen Hadow leiðangursstjóri er 46 ára. Með honum eru þau Ann Daniels 44 ára og Martin Hartley 40 ára. 

Að sögn BBC eru pólfararnir með flotbúninga og ætla að synda yfir vakir sem verða á leið þeirra. Gervihnattamyndir af pólsvæðinu hafa sýnt rýrnun íshellunnar en leiðangurinn á að leiða í ljós þynningu hennar.

Vísindamenn hafa spáð því að hlýnun loftslagsins muni leiða til þess að norðurskautssvæðið verði íslaust að sumarlagi í lok þessarar aldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert