Einn af helstu stjórnendum forsetaframboðs Georges W. Bush hvatti Al Gore varaforseta Bandaríkjanna til að hætta þrefi um atkvæði í Flórída og fallast á niðurstöðu endurtalningar sem lauk í dag. Háttsettur embættismaður í framboðsstjórn Als Gores sagði hins vegar að kosningunni væri hreint ekki lokið. Samkvæmt óstaðfestum fréttum bandarískra fjölmiðla leiddi endurtalninginn í ljós að Bush fékk 327 atkvæðum meira í ríkinu en Gore en enn eru ótalin nokkur þúsund utankjörstaðaratkvæði.
„Endurtalningin sýnir að Bush vann í Flórída," sagði Karen Hughes upplýsingafulltrúi Bush í yfirlýsingu sem send var út frá Austin í Texas þar sem Bush er ríkisstjóri.„Þvert á yfirlýsingar sem komið hafa frá framboði Bush er ljóst að þessum kosningum er langt frá því lokið," sagði William Daley framkvæmdastjóri framboðs Gores í yfirlýsingu. Samkvæmt áætlun fréttastofunnar AP sýndi endurtalningin að Bush fékk 2.910.198 atkvæði en Gore 2.909.871 atkvæði. Endanleg úrslit í Flórída verða hins vegar ekki birt fyrr en undir lok næstu viku þegar búið verður að telja öll utankjörstaðaratkvæði. Þá var staðfest í morgun að 19 þúsund atkvæði í Long Beach-sýslu í Flórída hefðu verið úrskurðuð ógild þar sem merkt var við bæði Pat Buchanan og Gore. „Við vonum að varaforsetinn og framboð hans muni draga til baka hótanir um lögsókn og frekari endurtalningar," segir í yfirlýsingunni frá framboði Bush. „Það myndi grafa undan stjórnarskrárbundnum framgangi við val á forseta með ófyrirsjáanlegum afleiðingum," sagði í yfirlýsingunni. Í yfirlýsingu frá framboði Gores segir hins vegar að vilji fólksins verði að fá að ráða og í því felist að reyna verði á kosningalögin. „Ef í ljós kemur, að því loknu, að George W. Bush er sigurvegari munum við virða þá niðurstöðu," segir í yfirlýsingu Daleys.Atkvæði verða talin í þriðja sinn, nú í höndunum, í tveimur sýslum, Palm Beach og Volusia; og framboð Gores hefur krafist þess að talið verði á ný í tveimur sýslum til viðbótar, Broward og Dade. „Við viljum gera öllum ljóst hvað er í húfi. Tæknileg atriði eiga ekki að ráða því hver skipar embætti forseta Bandaríkjanna. Vilji fólksins á að ráða," segir í yfirlýsingu Daleys.