Rice herðir eftirlit með Blackwater

Bandaríski hermaðurinn Ron Buckles og eiginkona hans Teresa skömmu áður …
Bandaríski hermaðurinn Ron Buckles og eiginkona hans Teresa skömmu áður en hann hélt til herþjónustu í Írak í dag. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf í morgun fyrirmæli um að eftirlit með starfsemi einkafyrirtækisins Blackwater verði hert en fyrirtækið hefur m.a. séð um öryggisgæslu bandarískra embættismanna í Írak. Rannsókn stendur nú yfir á skotárás öryggisvarða fyrirtækisins á óbreytta borgara í Bagdad á vegum tveggja bandarískra ráðuneyta og bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Ákvörðun Rice er byggð á frumniðurstöðum rannsóknar bandaríska utanríkisráðuneytisins á atvikinu, sem kostaði a.m.k. tíu óbreytta íraska borgara lífið. Sean McCormack, talsmaður ráðuneytisins, segir ákvörðun Rice miða að því að skýra lagalega ábyrgð starfsmanna fyrirtækisins og auka aga innan þess.

Eftirlitið felst m.a. í því að fulltrúar öryggisdeildar bandaríska utanríkisráðuneytisins verða alltaf með í för þegar starfsmenn Blackwater fylgja bílalestum bandarískra embættismanna. Þá verða öll talstöðvarsamtöl starfsmanna fyrirtækisins hljóðrituð og eftirlitsmyndavélum komið fyrir í bílum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka