Myndband birt af atvikinu í Hormuz-sundi

Bandarískt herskip sést hér á siglingu í Persaflóa.
Bandarískt herskip sést hér á siglingu í Persaflóa. AP

Bandaríkjaher hefur birt mynd- og hljóðupptökur sem sýna íranska báta sem bandarísk yfirvöld segja að hafi haft í hótunum við bandarísk herskip í Hormuz-sundi. Bandaríkin saka Írana um að hafa hótað að sprengja skipin í loft upp.

Upptakan, sem er tekin um borð í einu af þremur skipum Bandaríkjahers, sýnir nokkra litla báta íranska byltingavarðarins nálgast skipin á miklum hraða, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði að hegðun Írana hefði verið ögrandi. Hann bætti því við að hættulegt ástand hefði skapast sem menn áttu að geta forðast.

Írönsk stjórnvöld hafa vísað öllum ásökunum á bug og segja að aðeins hafi verið um venjubundið eftirlit að ræða.

Á myndbandinu, sem er um fjögurra mínútna langt, má sjá hvernig bátarnir sigla hratt á eftir bandarísku herskipunum. Nærmynd er tekin af einum bátnum og er um bláan hraðbát að ræða með a.m.k. tveimur innanborðs.

Þegar herinn verður var við bátana heyrist í einum sjóliðanna senda út viðvörun í gegnum talstöð og lætur mennina vita af því að þeir séu að nálgast herskip bandamanna. Herinn segir atvikið hafa varað í um 20 mínútur.

Við lok upptökunnar dettur myndin út og aðeins hljóð heyrist. Margt af því sem heyrist er óskýrt. Það heyrist hinsvegar þegar herinn sendir frá sér lokaviðvörun um að breyti bátarnir ekki um stefnu muni bandaríski sjóherinn grípa til aðgerða. Í framhaldinu heyrist í karlmanni segja með þykkum hreim: „Ég nálgast ykkur. Þið munið springa.“

Bandaríska varnarmálaráðuneytið heldur því fram að þetta hafi verið bein hótun frá Írönum. Írönsk stjórnvöld gera hinsvegar lítið úr atvikinu og segja að ekkert óvenjulegt hafi verið í gangi. Bátarnir hafi aðeins verið við venjubundið eftirlit á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert