Sjálfsvígsmenn gerðu tvöfalda sprengjuárás fyrir utan þéttskipaða mosku sjíta múslíma í íraska bænum Tal Afar í norðvesturhluta landsins. Fjórir létust hið minnsta og sautján særðust að sögn lögreglu.
Öryggissveitarmeðlimir lögreglunnar skutu báða sjálfsvígsmennina en mennirnir náðu eigi að síður að sprengja sprengjufyllt vesti sín með fyrrgreindum afleiðingum.
Árásirnar voru gerðar á meðan föstudagsbænastundin stóð yfir og moskan því þétt skipuð.
Annar sjálfsvígsmaðurinn ætlaði sér inn í moskuna en var stöðvaður af öryggisvörðum sem skutu hann í fótleggina er hann henti handsprengju og sprengdi sprengjuvestið. Nokkrir verðir særðust við þetta.
Er fólk kom hlaupandi út úr moskunni til að gæta að hvað hefði gerst kom seinni sjálfsvígsmaðurinn aðvífandi og hljóp inn í hópinn. Vörðunum tókst einnig að skjóta hann en honum tókst eigi að síður að sprengja sig í loft upp og deyða fjóra nærstadda.
Tal Afar er nærri sýrlensku landamærunum í norðurhéruðum sem nefnast Nineveh þar sem talið er að al-Qaeda liðar hafi náð að safnast saman eftir að hafa verið hraktir frá Bagdad og nærliggjandi héruðum.