Fimm læstar hurðir lokuðu kjallara Fritzl

Lögregla í Austurríki hefur vísað á bug staðhæfingum Josef Fritzl um að hann hafi lokað dóttur sína Elisabeth niðri í kjallara á heimili sínu í 24 ár til að vernda hana og koma í veg fyrir að hún leiddist út í fíkniefnaneyslu. Segir lögregla ljóst að tilgangur hans hafi verið að fullnægja kynferðislegum löngunum sínum en Elisabeth fæddi föður sínum sjö börn á þeim tíma sem hún var fangi hans.

„Ástæðan að baki þessa skelfilega glæps er óvéfengjanlega kynferðisleg,” sagði Franz Polzer, yfirmaður austurrísku rannsóknarlögreglunnar á blaðamannafundi í gær. 

Þá greindi hann frá því að hurðin sem lokaði kjallaranum sem Elisabeth og þrjú börn hennar bjuggu í hafi verið 300 kíló að þyngd. Hún hafi verið læst með aðgangsorði auk þess sem hún hafi verið falin á bak við bókahillu í herbergi sem var inn af fimm öðrum kjallaraherbergjum, sem öll hafi verið læst með þungum hurðum. 

Einnig var greint frá því í gær að Fritzl haldi því fram að hann hafi gert neyðarráðstafanir þannig að hurðirnar myndu opnast að ákveðnum tíma liðnum kæmi eitthvað fyrir hann. Verið er að rannsaka hvort þetta sé rétt. Einnig er hann sagður hafa hótað Elisabeth og börnunum dæla gasi niður í kjallarann og myrða þau ef þau reyndu að flýja eða vinna honum mein.

Um hundrað einstaklingar hafa búið í húsinu fyrir ofan kjallarann á þeim tíma sem Elisabeth hefur verið þar í haldi í kjallaranum og miðar rannsókn lögreglu m.a. að því að upplýsa hvernig á því getur staðið að aldrei hafi vaknað grunur um að eitthvað óeðlilegt ætti sér þar stað.

Fram kom í dag, að Fritzl hafi neytt dóttur sína til að skrifa bréf á síðasta ári þar sem hún segist vilja snúa heim eftir tveggja áratuga veru hjá sértrúarsöfnuði. Það sé þó ekki mögulegt strax. Segir lögregla að Fritzl kunni að hafa verið að íhuga að sleppa dóttur sinni lausri og þetta sýni hve hann skipulagði allt í þaula.

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka