Lögmenn Kanadamanns, sem setið hefur í fangabúðum Bandaríkjahers við Guantánamoflóa á Kúbu, hafa birt hluta af myndbandi sem sýnir kanadíska embættismenn yfirheyra manninn í fangabúðunum. Er þetta í fyrsta skipti sem myndir af yfirheyrslum í Guantánamo eru birtar.
Áður hafði hæstiréttur Kanada komist að þeirri niðurstöðu, að Omar Khadr, sem grunaður er um hryðjuverkastarfsemi, ætti rétt á að fá í hendur ýmis gögn vegna málsvarnar sinnar, þar á meðal myndband sem tekið var af löngum yfirheyrslum yfir honum í fangabúðunum.
Khadr, sem er grunaður um tengsl við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda, var handtekinn í Afganistan fyrir sex árum, þá 15 ára gamall, og hefur setið í fangabúðunum á Kúbu síðan. Hæstiréttur Kanada komst að þeirri niðurstöðu á föstudag, að kanadísk stjórnvöld hefðu brotið mannréttindi á Khadr með því að afhenda Bandaríkjamönnum gögn um yfirheyrslur yfir honum.
Myndbandið, sem nú hefur verið birt, sýnir kanadíska embættismenn yfirheyra Khadr á fjögurra daga tímabili árið 2003. Að sögn AP fréttastofunnar sýna myndirnar vel hvaða áhrif áhrif langar yfirheyrslur og fangavist hafa á fangana í Guantánamo.
Khadr er sakaður um að hafa varpað handsprengju á bandarískan hermann meðan á skotbardaga stóð í Afganistan árið 2002.