Radovan Karadžić, fyrrum leiðtogi Bosníu-Serba og eftirlýstur stríðsglæpamaður, hefur verið handtekinn að sögn serbnesku leyniþjónustunnar. Karadžić hefur verið eftirlýstur í meira en áratug.
Skrifstofa Boris Tadićs, forseta Serbíu, hefur staðfest handtökuna. Í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni segir, að leyniþjónustan hafi haft upp á Karadžić í kvöld og handtekið hann. Farið var með hann fyrir stríðsglæpadómstól í Belgrad í samræmi við serbnesk lög um samvinnu við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag.
Karadžić hefur verið eftirlýstur af alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag frá árinu 1996, en hann hefur verið ákærður fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi gegn Krótöum og múslimum í Bosníu og Hersegóvínu meðan á borgarastríðinu þar stóð á árunum 1992-1995, þar á meðal fyrir morð á nærri 8000 múslimum í Srebrenica árið 1995.
Ratko Mladić, sem var yfirmaður hers Bosníu-Serba, leikur enn lausum hala en hann er einnig eftirlýstur. Mjög hefur verið þrýst á stjórnvöld í Serbíu að handtaka þá Karadžić og Mladić og fleiri eftirlýsta stríðsglæpamenn. Alls hafa 43 Serbar verið framseldir til Haag, þar á meðal Slobodan Milošević, fyrrum forseti Júgóslavíu, sem hrakinn var frá völdum árið 2000 og lést árið 2006 í Haag á meðan réttarhöld stóðu yfir honum.
Á laugardag framseldu serbnesk stjórnvöld Stojan Župljanin, fyrrum lögreglustjóra í Bosníu, sem var handtekinn í Serbíu í síðustu viku eftir að hafa farið huldu höfði í 9 ár. Župljanin er sakaður um að hafa stýrt fangabúðum í Bosníu þar sem þúsundir múslima og Króata voru drepnar.