Rogge lofar yfirvöld í Peking

Jacques Rogge, forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar, lofar yfirvöld í Peking fyrir tilraunir til þess að sporna gegn mengun í borginni.  Þá segir hann heilsu íþróttamanna ekki vera í hættu þrátt fyrir að magn loftmengunar sé langt yfir mörkum.

Aðeins einn dagur er þangað til leikarnir hefjast en á fréttavef BBC kemur fram að samkvæmt mælingu þeirra sé styrkur loftmengunar (PM10) í Peking 191 µg/m³.  Það sé langt yfir mörkum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem eru almennt 50 µg/m³, en 150 µg/m³ í þróunarlöndum.

Rogge lofar kínversk yfirvöld fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að fást við vandann og hreinsa loftið.  Rogge segir að íþróttamönnum, sem taki þátt í atburðum sem eru styttri en klukkustund, muni ekki stafa hætta af loftmengun.  Ennfremur segir Rogge að ef loftmengun mælist mjög há og íþróttaviðburðir séu lengri en klukkustund, verði hægt að færa þá til í tímasetningu eða fresta þeim. 

Þá hvatti Rogge fréttamenn til þess að gera greinarmun á þoku og loftmengun.  „Raki og hiti eru undirstaða þoku, það er ekki það sama og mengun," sagði Rogge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert