Vill láta vana barnaníðinga

Donald Tusk vill ganga hart fram gegn barnaníðingum.
Donald Tusk vill ganga hart fram gegn barnaníðingum. Reuters

Pólska ríkisstjórnin, að frumkvæði forsætisráðherrans Donald Tusk, vill láta vana barnaníðinga. Fulltrúar frá Evrópuþinginu hafa lagst gegn áformunum en þingið getur þó ekki komið í veg fyrir þau. Þetta kemur fram á vefsíðu Der Spiegel.

Forsaga málsins er sifjaspellsmál sem kom upp í þorpi í austur-Póllandi. Fyrir tveimur vikum handtók pólska lögreglan 45 ára gamlan mann sem hafði beitt dóttur sína kynferðislegu ofbeldi í sex ár og hafði stúlkan, sem nú er 21 árs, eignast tvö börn með föður sínum.

Tusk var sleginn vegna málsins. „Það er mín skoðun að slíka einstaklinga, eða skepnur, sé ekki hægt að kalla fólk,“ var haft eftir Tusk. Þess vegna þurfi ekki heldur að meðhöndla það með mannréttindi í huga. Vönunin, sem verði framkvæmd með lyfjagjöf, eigi ekki að fara fram að ósk hins dæmda heldur verði hún hluti af dómnum. Refsingin varði aðallega barnaníðinga og sérstaklega þá sem ekki séu líklegir til að bæta ráð sitt.

Heilbrigðis- og dómsmálaráðuneytin vinna nú að breytingu hegningarlaga og skv. vilja Tusk á lagafrumvarpið að verða til í október. „Ég vil að í Póllandi verði hörðustu refsingum sem völ er á beitt gegn þeim sem afbrotamönnum sem nauðga börnum,“ hefur Der Spiegel eftir Tusk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert