Dæmd fyrir aðild að andláti dóttur sinnar

Kona var í dag dæmd fyrir manndráp í undirrétti í Brooklyn í Bandaríkjunum fyrir sinn þátt í andláti sjö ára gamallar dóttur sinnar. Stúlkan var vannærð en hún lést eftir högg frá föður sínum eftir að hafa stolið jógúrtdollu. Stúlkan var vannærð og hafði búið við mikið harðræði á heimilinu. Þegar hún lést í janúar 2006 braust út mikil reiði meðal íbúa í New York vegna stöðu velferðarmála í borginni.

Móðirin, Nixzaliz Santiago, hafði verið ákærð fyrir morð, líkt og eiginmaður hennar, Cesar Rodriguez, en þau voru bæði sýknuð af þeirri ákæru en dæmd fyrir manndráp. Rodriguez var í mars sl. dæmdur í 29 ára fangelsi fyrir aðild að láti stúlkunnar sem hann hafði slegið ítrekað fyrir að hafa stuldinn á jógúrtinu.

Réttarhöldin hafa vakið upp spurningar um hvort gera eigi frekari kröfur til móður um að vernda barnið sitt en föður. Saksóknarar í málinu sögðu að móðirin hafi brugðist hlutverki sínu um að vernda barnið sitt er faðirinn lamdi barnið og því ætti hún að fá þunga refsingu. 

„Dagurinn í dag er góður dagur fyrir börn þar sem dómarinn sagði hátt og skýrt að foreldrar beri ábyrgð," sagði Ama Dwimoh saksóknari í málinu. „Það er ekki bara hvað þú gerir heldur einnig hvað þú gerir ekki."

Meðal sönnunargagna í málinu voru myndir af Nixzmary litlu þar sem hún var bundin niður í stól, svelt og neydd til þess að hafa þvaglát í ruslatunnu.

Er talið að móðirin eigi yfir höfði sér enn þyngri refsingu heldur en eiginmaðurinn eða allt að 33 ár. Refsing verður tilkynnt þann 5. nóvember. 

Barnaverndaryfirvöld í New York voru harðlega gagnrýnd í málinu fyrir aðgerðarleysi en starfsmenn skóla stúlkunnar höfðu ítrekað látið vita að hana vantaði í skóla svo vikum skipti. Nágrannar höfðu látið vita af því að stúlkan væri með óútskýrða áverka og greinilegt væri að hún fengi ekki nægjanlega næringu. Í tvígang var haft samband við barnaverndareftirlitið en starfsmenn þess sögðu að ekkert amaði að á heimilinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert