Afbrotum eldri borgara í Japan fjölgar

Afbrotum eldri borgara í Japan hefur snarfjölgað á síðustu fimm árum. Nærri lætur að tvöfalt fleiri eldri borgara hafi verið handteknir vegna afbrota í fyrra en árið 2002.

Tæplega 49 þúsund Japanar, 65 ára og eldri, voru handteknir vegna afbrota í fyrra en árið 2002 voru brotamenn meðal japanskra eldri borgara rúmlega 24 þúsund. Þetta er rúmlega tvöföldun á fimm árum. Afbrot eldri borgara í Japan jukust um 4,2% í fyrra borið saman við árið 2006. Á sama tíma fækkaði afbrotum í Japan um 4,8% 

Japanar eru nú 128 milljónir og er einn fimmti hluti landsmanna 65 ára eða eldri.Í skýrslu dómsmálaráðuneytis Japans segir að aukning glæpa meðal eldri borgara sé umtalsvert meiri en fjölgun í aldurshópnum.

Vasaþjófnaðir og búðaþjófnaðir eru algengustu afbrot eldri borgaranna eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Ráðuneytið telur að skýra megi þessa þróun með lækkun heimilistekna, atvinnuástandi, heilsubresti eða einangrun eldri borgaranna. Afar sjaldgæft er að eldri borgarar fremji alvarleg afbrot, eins og morð eða rán. Athygli vekur að í skýrslunni segir að afbrot eldri karlmanna eru oftar tengd fjárhagsstöðu meðan aðrar ástæður liggja ða baki afbrotum eldri kvenna.

„Afbrot eldri borgara eru alvarlegt og vaxandi vandamál í Japan. Við verðum að horfast í augu við það og bregðast við. Þjóðin eldist mjög hratt og verði ekkert að gert þá verður vandamálið risavaxið innan fárra ára,“ segir Toru Suzuki talsmaður dómsmálaráðuneytis Japans. 

Þessi aukning afbrota meðal eldri borgara hefur valdið vandræðum í fangelsiskerfi Japans. Breyta hefur þurft fangelsum í samræmi við þarfir eldri fanganna, þeir vinna síður erfiðisvinnu líkt og tíðkast í fangelsunum og síðast en ekki síst hefur þörf fyrir hjúkrun innan veggja fangelsanna stóraukist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka