Nú þegar nær öruggt þykir að Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, muni skipa blökkumanninn Eric Holder í embætti dómsmálaráðherra, eru uppi umræður vestanhafs um hvort dómsmálanefnd öldungadeildarinnar samþykki valið.
Fjölmiðlar hafa þannig rifjað upp að á síðustu dögum Bills Clintons í embætti forseta í janúarmánuði 2001 hafi Holder, sem þá var aðstoðardómsmálaráðherra, lýst því yfir að hann væri hlynntur því að náða auðmanninn Marc Rich, sem hafði þá árum saman verið á flótta undan réttvísinni út af ákærum um skattsvik.
Eiginkona Rich, Denise, lét um líkt leyti mikið fé renna í kosningasjóði demókrata.
Náðunin reyndist feilspor. Náðuninni var ákaft mótmælt og sá þingið ástæðu til að rannsaka hvort hún hefði verið af pólitískum rótum.
Holder baðst síðar afsökunar á afstöðu sinni, sagði hana hafa byggt á fljótfærni. Hann hefði mælst gegn náðuninni ef hann hefði þekkt málavexti betur.
Öldungadeildarþingmaðurinn Arlen Specter, sem á sæti fyrir repúblikana í Pennsylvaníu, ásamt því að sitja í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar, segir náðunina munu verða tekna til umræðu komi til þess að nefndin greiði atkvæði um skipun Holders.
Náðunin yrði þó ekki efst á listanum yfir þá þætti í ferli Holders sem athygli nefndarinnar myndi beinast að.