Yfirmenn grafreits Múslíma í Mumbai á Indlandi hafa neitað að taka við líkum níu árásarmann sem stóðu fyrir hryðjuverkaárás á borgina í síðustu viku. Að þeirra sögn eru mennirnir ekki sannir fylgjendur hinnar Íslömsku trúar og fá því ekki inni í grafreitnum.
„Menn sem fremja svo svívirðilega glæpi geta ekki með réttu kallast múslimar,“ hefur AP fréttaveitan eftir Hanif Nalkhande, eins stjórnarmeðlima grafreitsins. „Íslam samþykkir ekki viðbjóðslega glæpi af þessu tagi.“
Alls stóðu 10 árásarmenn fyrir umsátrinu á Mumbai á miðvikudaginn í liðinni viku. Einn þeirra var fangaður á lífi en hinir 9 létust, auk þess sem 172 saklaus fórnarlömb lágu í valnum. Lík árásarmannanna 9 liggja nú í líkhúsi og bíða þess að vera jarðsett. Alla jafna eru lík þeirra sem taldir eru múslimar án þess að kennsl hafi verið borin á þá færð í umsjá nærliggjandi grafreits múslima til greftrunar innan þriggja daga, en nú veit lögreglan ekki hvað gera skal.
„Okkur ber skylda til að sjá til þess að árásarmennirnir fái útför í samræmi við þá trú sem þeir fylgja,“ segir Jain Sirmukadam, yfirmaður innan lögreglunnar. Sjö aðrir múslimagrafreitir eru í Mumbai, en líklegt er talið að enginn þeirra vilji taka við líkunum eftir fordæmið sem sett hefur verið.
Ýmsir íslamskir fræðimenn hafa stutt ákvörðuninan, en aðrir gagnrýnt hana með þeim rökum að skæruliðar eigi þó rétt á viðeigandi greftrun eins og allir aðrir. „Samkvæmt Sharía-lögum ber þér að útvega sérhverjum múslima greftrunarstað, jafnvel þótt hann hafi verið drykkjumaður, nauðgari eða glæpamaður.“