ESB þjóðir taki við föngum

Fangar í Guantanamo.
Fangar í Guantanamo. HO

Evrópuþingið hvatti í dag ríki Evrópusambandsins til að hjálpa Barack Obama Bandaríkjaforseta við lokun Guantanamo fangabúðanna með því að taka við föngum þaðan. Tillagan fékk stuðning 542 þingmanna, 55 voru á móti og 51 sat hjá.

Þingmenn Evrópuþingsins sögðu að um leið og fangar væru ekki taldir ógna öryggishagsmunum ættu aðildarþjóðir ESB að veita þeim viðtöku.

Margar ESB-þjóðir hafa sagt að líklegt sé að þær taki við föngum úr fangabúðunum, þjóðirnar hafa þó ekki skuldbundið sig sameiginlega í þeim efnum. Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið til kynna að þjóðir sem taka við föngum geti fengið fjárhagslega styrki til þess.

Alexandr Vondra aðstoðarforsætisráðherra Tékklands, sem situr í forsæti ESB, sagði það vera fyrst og fremst hlutverk Bandaríkjanna að hreinsa til í Guantanamo. Hann varaði við því að ESB-þjóðir þyrftu meiri tíma til að meta að fullu lagalegar og öryggislegar hliðar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert