Breski spennusagnahöfundurinn Frederick Forsyth var í Gíneu-Bissau þegar hermenn myrtu Joao Bernardo Vieira, forseta landsins, á mánudag. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC lýsir Forsyth hvernig hermennirnir réðust til inngöngu í hús forsetans og höfðu hann á brott með sér.
„Ég get fullvissað ykkur um að ég átti engan þátt í valdaráninu," segir Forsyth við BBC. Hann hefur viðurkennt að hafa lagt valdaræningjum í Miðbaugs-Gíneu lið árið 1973. Ári síðar skrifaði hann bókina The Dogs of War sem fjallaði um misheppnaða valdaránstilraun í tilbúnu Afríkuríki. Þekktastur er hann þó fyrir bókina Dag Sjakalans, sem hefur m.a. komið út á íslensku og verið kvikmynduð tvívegis.
Forsyth er í Gíneu-Bissau til að afla efnis fyrir væntanlega skáldsögu. Hann sagðist hafa vaknað upp við sprengingu aðfaranótt mánudags þegar hermenn réðust til inngöngu í forsetabústaðinn.
„Þeir fóru að húsi hans, köstuðu sprengju gegnum gluggann þannig að forsetinn særðist en lét ekki lífið. Þakið hrundi, við það slasaðist forsetinn enn meira en lifði enn. Hann skjögraði út úr rústunum og var þá skotinn. Það nægði þó ekki til að vinna á honum. Þeir fóru þá með hann að húsi tengdamóður hans og hjuggu hann í sundur með sveðjum," sagði Forsyth við BBC.
Rithöfundurinn sagðist vera fastur í Bissau, höfuðborg landsins. Hann segist væntanlega munu nýta sér þessa atburði í bókinni, sem hann er að skrifa.
Raimundo Pereira sór embættiseið sem forseti til bráðabirgða í gær. Hann hefur leitað til alþjóðasamfélagsins eftir aðstoð við að koma á ró í landinu.