Á annað þúsund manns smitaðir

Ríflega 1.600 manns hafa smitast af svínaflensunni í Mexíkó og …
Ríflega 1.600 manns hafa smitast af svínaflensunni í Mexíkó og rúmlega hundrað manns hafa látið lífið vegna hennar. Stringer/Mexico

Þjóðir heims hamast við að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu svínaflensunnar sem greinst hefur í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada. Frá þessu er greint á fréttavef BBC. 

Jose Anfel Cordova, heilbrigðisráðherra Mexíkó, staðfestir að a.m.k. 103 einstaklingar hafi látist vegna flensunnar og meira en 1.600 manns séu smitaðir. Talið er að um tuttugu dauðstilfelli séu vegna nýs afbrigði veirunnar og er verið að yfirfara sýni sem tekin voru. 

Sameinuðu þjóðirnar haf varað við því að flensan geti orðið að heimsfaraldri, en talsmenn SÞ taka fram að heimurinn hafi aldrei verið jafnvel undirbúinn undir slíkan faraldur. 

A.m.k. tuttugu manns hafa sýkst í Bandaríkjunum auk þess sem staðfest er að flensan hefur greinst í Kanada. Einnig leikur grunur um að flensan hafi gert vart við sig á Spáni, í Ísrael og Nýja sjálandi. Í þeim tilvikum þar sem fólk hefur greinst  annars staðar en í Mexíkó hafa sjúkdómseinkennin verið mun vægari og fólkið hefur náð fullum bata. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) varar við því að svínaflensan geti stökkbreytt sér og hugsanlega orðið mun hættulegri. En starfsmenn segjast þurfa meiri upplýsingar um veiruna áður en tekin verður ákvörðun um að lýsa yfir hættuástandi í heimnum vegna flensunnar. Sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda vilja m.a. vita af hverju sumir sem smitast verða lífshættulega veikir meðan aðrir fá aðeins venjuleg flensueinkenni. 

Kínverjar hafa bannað innflutning á svínakjöti frá Mexíkó og þeim hlutum Bandaríkjanna þar sem svínaflensan hefur greinst, en það er Texas, Kansan og Kalifornía. Frá þessu segir á fréttavef AFP. Haft er eftir landbúnaðarráðherra Kína að markmið bannsins sé að koma í veg fyrir að flensan breiðist til Kína. Fleiri lönd hafa farið að ráði Kínverja svo sem Filippseyjars. Ekki er vitað til þess að svínaflensan geti smitast með kjötáti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka