Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna varar við hydroxycut

Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur varað fólk við því að nota fæðubótarefnið hydroxycut vegna dauðsfalls, sem rakið er til lifrarbilunar, og fleiri alvarlegra sjúkdómstilfella. Skýrt er frá þessu á vef The New York Times.

Bandaríska lyfjaeftirlitið segist hafa fengið 23 tilkynningar um alvarleg veikindi fólks sem notað hefur hydroxycut, meðal annars um mann sem hafi þurft lifrarígræðslu. Meðal annarra vandamála sem komið hafa upp eru hjartsláttartruflanir og vöðvaskemmdir sem geta valdið lifrarbilun, að sögn lyfjaeftirlitsins.

Fyrr á árinu var skýrt frá því í Morgunblaðinu að óvenjumargir, sem notuðu hydroxycut, hefðu leitað á hjartadeild Landspítala með hjartsláttartruflanir.

Hydroxycut er eitt vinsælasta fitubrennsluefni í heiminum og sala þess hér á landi hefur verið stigvaxandi með hverju árinu. Á vefsíðu umboðsaðila efnisins segir að hydroxycut auki hitastig líkamans og örvi þannig grunnbrennslu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert