Inflúensa í rénun í Mexíkó

Inflúensufaraldurinn er nú í rénun í Mexíkó að sögn José Ángel Córdova Villalobos, heilbrigðisráðherra landsins. Sagði hann að faraldurinn hefði náð hámarki á tímabilinu frá 23. til 28. apríl. Að minnsta kosti 19 manns hafa látist í Mexíkó af völdum sjúkdómsins.

Ráðherrann sagði á blaðamannafundi, að svo virðist sem sjúkdómurinn sé á undanhaldi.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir embættismanni hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, að stjórnvöld um heim allan verði að halda vöku sinni gagnvart inflúensunni. Þótt faraldurinn kunni að virðast í rénun í Mexíkó geti hann blossað upp aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka