Tryggja fullveldið og sósíalismann

Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja, að kjarnorkutilraunin, sem gerð var þar í landi í nótt, stuðli að því að tryggja fullveldi landsins og þjóðarinnar og sósíalismann. Norður-Kóreumenn munu hafa látið Bandaríkjastjórn vita af tilrauninni með innan við klukkutíma fyrirvara.

Norður-Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengju neðanjarðar í morgun og mældist höggið frá sprengingunni 4,5 stig á Richter á jarðskjálftamælum í Suður-Kóreu. Er það talið svara til þess, að sprengjan hafi verið um 20 kílótonn eða álíka stór og sprengjurnar sem sprengdar voru yfir japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki árið 1945. 

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist hart við. Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði að aðgerðir Norður-Kóreumanna ógnuðu alþjóðlegum friði og grípa yrði til viðeigandi aðgerða. Bæði Rússar og Kínverjar hafa einnig gagnrýnt Norður-Kóreu en hvetja til þess að viðræðum um afvopnun verði haldið áfram.

Rússar, sem fara með forsætið í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir, hafa boðað til neyðarfundar í ráðinu.   

Kína, Janan, Rússland, Suður-Kórea og Bandaríkin hafa undanfarin ár reynt að semja við Norður-Kóreu um að leggja af þróun kjarnavopna gegn ýmiskonar fjárhags- og tækniaðstoð. Árið 2007 féllust Norður-Kóreumenn á að loka kjarnaverum sínum en það samkomulag fór út um þúfur í desember sl. vegna deilna um eftirlit.

Norður-Kórea skaut langdrægri eldflaug á loft í apríl og litu margar þjóðir á það sem kjarnorkutilraun. Öryggisráð SÞ fordæmdi eldflaugarskotið og samþykkti að herða viðskiptaþvinganir. Norður-Kóreumenn hótuðu þá að gera frekari kjarnorkuvopnatilraunir ef öryggisráðið bæðist ekki afsökunar.

Jafnframt lýstu Norður-Kóreumenn því yfir, að þeir væru hættir þátttöku í sex ríkja viðræðunum og myndu hefja plútoníumframleiðslu að nýju.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert