Obama vill harðar aðgerðir gegn N-Kóreu

Mótmælandi brennir mynd af Kim Jong-il, leiðtoga Norður-Kóreu, við sendiráð …
Mótmælandi brennir mynd af Kim Jong-il, leiðtoga Norður-Kóreu, við sendiráð Bandaríkjanna í Seoul í Suður-Kóreu. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur rætt við leiðtoga Japan og Suður-Kóreu og heitið þeim stuðningi gagnvart Norður-Kóreumönnum í kjölfar þess að Norður-Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni í fyrrinótt. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Samkvæmt upplýsingum Hvíta hússins ræddi hann við Lee Myung-bak, forseta Suður-Kóreu og Taro Aso, forsætisráðherra Japans, um samræmd viðbrögð við kjarnorkutilrauninni og urðu þeir sammála um að vinna að samþykkt harðra refsiaðgerða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Öryggisráðið samþykkti ályktun seint í gærkvöldi þar sem kjarnorkutilraunin var harðlega fordæmd en unnið er að drögum að ályktun um refsiaðgerðir. 

Yfirvöld í Suður-Kóreu segja þó ýmislegt benda til þess að Norður-Kóreumenn séu að undirbúna aðra tilraunasprengingu. Þá segir í einu helsta málgagni norður-kóreskra stjórnvalda í morgun að Norður-Kóreumenn ætli sér að verjast hvers kyns árásum.

„Það er ljóst að það hefur ekkert breyst varðandi fjandsamlega stefnu  Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu… jafnvel með hinni nýju stjórn,” segir þar. „Her okkar og fólk er reiðubúið til að berjast… gegn hvers kyns ábyrgðarlausri tilraun Bandaríkjanna til árásar.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert