Eva Joly: Botninum ekki náð

Eva Joly segir að botninum sé ekki náð.
Eva Joly segir að botninum sé ekki náð. mbl.is/Ómar

Eva Joly hefur í mörg horn að líta þessa dagana og í gær bætti hún enn einu verkefni á sig þegar hún fékk stöðu við háskólann í Tromsø í Norður Noregi. Sjálf segist hún vera undir það búin að kenna og hélt opinn fyrirlestur um kreppuna, spillingu og skattaparadísir.

Á heimasíðu háskólans segir að fyrirlesturinn hafi verið svo fjölsóttur að flytja þurfti hann í stærri sal. „Fáir einstaklingar hafa rænt til sín miklum fjármunum með því að halda því fram að þjónusta þeirra sé algerlega nauðsynleg," sagði Joly í fyrirlestrinum og beindi þar spjótunum að bankastjórum í stórum bönkum sem hafa kollkeyrt hagkerfið en sleppa svo sjálfir á háum eftirlaunum og bónusgreiðslum.

„Þegar Bandaríkin hnerra fær restin af heiminum kvef," sagði Joly og benti á að Bandaríkin hefðu 25% af brúttó þjóðarframleiðslu heimsins og að 72% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna væri byggð á neyslu, neyslu sem minnkaði í takt við þau 1,1 milljón störf sem nú hyrfu í því landi í hverjum mánuði.

Kunnugleg bjartsýni

„Verðbréfamarkaðirnir hafa rústað um helming af þjóðarframleiðslu þessa heims síðan í júlí 2007. Þessi varfærna bjartsýni sem við verðum vör við núna er eitthvað sem við sáum einnig á fjórða áratugnum þegar menn sannfærðu sjálfa sig um að allt myndi lagast. Ég er hins vegar viss um að botninum sé ekki náð," sagði Eva Joly.

Heimasíða Háskólans í Tromsø.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert