Eins árs gömul stúlka lést eftir að faðir hennar gleymdi henni í bíl sínum í Lyngby í Danmörku í dag. Stúlkan sat í bílnum allan daginn og er talið að hún hafi látist af völdum hita.
Lögregla á Sjálandi segir, að faðir stúlkunnar, sem er 29 ára, hafi ætlað að fara með hana á dagheimili en gleymt henni í bílnum. Þegar móðir stúlkunnar kom síðdegis að sækja hana á dagheimilið greip hún í tómt. Hún hringdi í föðurinn sem gerði sér grein fyrir því hvað hefði gerst. Stúlkan var hins vegar látin þegar faðirinn gætti að henni í bílnum. Þá var klukkan 15:30 að dönskum tíma.
Hitinn í Lyngby var 20-26 gráður yfir hádaginn í dag.
Lögregla hefur yfirheyrt föðurinn en segir að hann sé niðurbrotinn.
Svipað gerðist í belgíska bænum Haasrode fyrir viku. Þá kom móðir 11 mánaða gamals barns að því látnu í bíl föður barnsins.