Bandaríkjamenn sækja heilbrigðisþjónustu til Mexíkó

Á sjúkrahúsi í Mexíkóborg
Á sjúkrahúsi í Mexíkóborg STR

Fjöldi Bandaríkjamanna sækja heilbrigðisþjónustu suður til Mexíkó vegna þess hver dýr hún er norðan landamæranna. Ekki er ljóst hve margir bregða á þetta ráð en nýleg könnun Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) sækir ein milljón íbúa fylkisins sér þjónustu suður fyrir landamærin árlega.

Þetta segir á fréttavef Reuters.

Á sama tíma berst Barack Obama, Bandaríkjaforseti, við að fá samþykki bandaríska þingsins á endurskipulagningu þarlends heilbrigðiskerfi. Repúblikanar hafa veitt hugmyndum hans mikla mótspyrnu en þeir telja að þær muni fella of mikil kostnað á ríkið.

Beatriz Iturriaga er frá San Diego og brá sér til Tijuana í Mexíkó til að fara í hjáveituaðgerð. Heima fyrir myndi slík aðgerð kosta jafnvirði fimm milljóna króna en kostar aðeins rúm 800.000 í Tijuana. Þar er heilbrigðisþjónusta við nágrannana í norðri stór atvinnugrein og hægt að komast í ýmis konar skurðaðgerðir, allt frá fegrunaraðgerðum að legbrottnámi.

Bob Ritz, fyrrum lögreglumaður í Chicago, býr í borginni Tombstone í Arizona og er sjúkratryggður í heimalandi sínu. Þrátt fyrir að borga 400 dollara mánaðarlega í tryggingar, andvirði  50.000 króna, fer hann á nokkurra mánaða fresti og sækir heilbrigðisþjónustu til Mexíkó til að komast hjá kostnaði sem tryggingarnar greiða ekki.

„Ég er ljónheppinn að búa nógu nærri Mexíkó til að geta fengið góða heilbrigðisþjónustu á skynsamlegu verði,“ segir Ritz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert