Segir barnsrán og ánauð hjartnæma ástarsögu

Phillip Garrido, sem rændi ellefu ára stúlku í Kalíforníu árið 1991 og hélt henni fanginni í átján ár, segir að um hjartnæma ástarsögu hafi verið að ræða og að umheimurinn muni heillast af henni þegar hann heyri hana alla.

„Það var viðbjóðslegt sem ég gerði í upphafi en það breytti lífi mínu algerlega og til að skilja söguna verður fólk að byrja þar,” sagði hann í viðtali við sjónvarpsstöðina KCRA í Kalíforníu í morgun.

Þá segist hann hafa sofið með stúlkunni Jaycee Lee Dugard, sem nú er 29 ára, og tveimur dætrum sem hún ól honum, á hverri nóttu en dæturnar eru nú 15 og 11 ára gamlar.

Bandaríska alríkislögreglan handtók Garrido, sem er 58 ára, og Nancy eiginkonu hans, sem er 55 ára, á miðvikudag eftir að upp komst um málið. Það gerðist með þeim hætti, að Garrido, kona hans, Dugard og stúlkurnar tvær fóru öll á fund skilorðsfulltrúa Garridos sem er á skilorði vegna dóms sem hann hlaut fyrir mannrán og nauðgun í lok síðustu aldar.

„Að eignast þessar stelpur, sem sváfu í örmum mér á hverri nóttu, breytti lífi mínu. Frá fæðingu þeirra hef ég aldrei kysst þær,” segir hann. „Ég hef haft í mörgu að snúast undanfarin ár og hef algerlega snúið við blaðinu. Þið eigið eftir að heyra mjög áhrifamikla sögu frá vitninu, fórnarlambinu, bíðið bara. Ef þið hlustið á þetta skref fyrir skref þá eigið þið eftir að verða mjög hissa og að lokum sjá að þetta er mjög mögnuð, hjartnæm saga.”

Dugard var rænt við heimili sitt árið 1991. Stjúpfaðir hennar, Carl Probyn, varð vitni að því er hún var dregin inn í bíl. Hann elti bílinn á reiðhjóli en missti af honum. Probyn lá lengi undir grun um að bera ábyrgð á hvarfi Dugard.

Jaycee Dugard skömmu áður en henni var rænt
Jaycee Dugard skömmu áður en henni var rænt Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert