Hæstu skattarnir í Svíþjóð og Danmörku

Hátekjuskattar hafa undanfarin ár verið hæstir í heiminum í Danmörku. Svíþjóð hefur verið í öðru sæti. Á þessu verður breyting um næstu áramót og mun Svíþjóð þá taka sæti Danmerkur efst á listanum en Danmörk færist þá niður í annað sætið, samkvæmt frétt í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter.

Í fréttinni er vísað í samantekt fyrirtækisins KPMG, sem hefur tekið saman yfirlit yfir jaðarskatta í ýmsum löndum. Þar kemur fram að hátekjuskattur í Danmörku er nú 62,3% en verður 55,4% frá og með næstu áramótum. Í Svíþjóð er skattprósentan 56,7%. Í þriðja sæti á lista KPMG er Holland með 52,0%. Noregur er í 18. sæti ásamt fleiri löndum með 40,0%.

Í frétt danska viðskiptablaðsins Børsen segir að í Danmörku og Svíþjóð hafi borgaraflokkarnir verið við völd í mörg ár. Þrátt fyrir það þurfi borgarar þessara landa að greiða hæstu skattana af síðustu krónunum í launaumslaginu.

Ísland er ekki tekið með í samantekt KPMG. Hinn 1. júlí síðastliðinn tók gildi lagabreyting sem leggur 8% hátekjuskatt á allar tekjuskattskyldar tekjur yfir 700 þúsund krónum á mánuði. Almenn skattprósenta hér á landi er í kringum 37,2%. Skattur af síðustu krónum þeirra sem eru með yfir 700 þúsund krónur í mánaðarlaun er því 45,2%, sem er svipað og meðal annars á Írlandi og í Kína. gretar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert