Enginn hernaður á Friðardaginn

Afgönsk börn í Kabúl halda á fána vegna Friðardagsins í …
Afgönsk börn í Kabúl halda á fána vegna Friðardagsins í fyrra. Reuters

Hvorki afganskar né erlendar hersveitir í Afganistan munu fara í árásarferðir gegn Talibönum á Friðardegi Sameinuðu þjóðanna á mánudag, að sögn varnarmálaráðuneytis Afganistan.

Þrír bandarískir hermenn féllu í Afganistan í dag. Í gær varaði einn leiðtogi Talibana, Mullah Omar, erlendar hersveitir við því að alger ósigur þeirra væri í nánd. Sveitirnar verða því í viðbragðsstöðu á Friðardaginn.

,,Afganskar sveitir munu ekki ráðast á uppreisnarmenn nema að ráðist sé á þær á undan, " sagði talsmaður ráðuneytisins í samtali við AFP. ,,Fólkið í Afganistan þyrstir meira í frið en nokkur önnur þjóð."

Tilkynningin kemur í kjölfar svipaðrar tilkynningar frá Stanley McChrystal hershöfðingja en hann ræður yfir sameinuðum hundrað þúsund manna herafla NATO og Bandaríkjanna.

Friðardagurinn varð til árið 1981 og var ákveðið árið 2002 að 21. september væri árlegur dagur til þess að minnast og styrkja hugmyndina um frið meðal alls fólks og allra þjóða.

Talsmaður SÞ, Aleem Siddique, sagði að eftir að hafa hlýtt á tilkynningar frá Afgönum og frá alþjóðasamfélaginu og nokkuð blendnar yfirlýsingar frá Talibönum væri hann vongóður um að ofbeldi myndi minnka á mánudag.

,,Við vitum ekki hvort Talibanar ætla sér að hafa Friðardaginn í heiðri eða ekki. Þessi dagur snýst ekki um stjórnmál heldur mannúð."

Friðardaginn ber upp á þriggja daga Eid hátíð sem byrjar í dag en hún markar lok hins helga föstumánaðar Ramadan.

Einn talsmaður Talibana lét hafa eftir sér að þeir hygðust vera í varnarstöðu á morgun, líkt og aðra daga.

Miklar efasemdir eru um að Talibanar muni halda friðinn. Þeir sögðust ætla að halda að sér höndum á Ramadan en sex ítalskir hermenn létu lífið fyrir helgi vegna bílsprengju og fall varð líka meðal óbreyttra borgara. Þá létust fjórir óbreyttir borgara í Kandahar en þeir voru saman komnir ásamt miklum fjölda í miðbænum vegna Eid hátíðarinnar. Var sömuleiðis um sprengju að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert