Netfíklar sveltu barn sitt í hel

Foreldrar litlu stúlkunnar voru svo uppteknir í tölvuleikjum að þau …
Foreldrar litlu stúlkunnar voru svo uppteknir í tölvuleikjum að þau gleymdu henni Reuters

Hjón í Suður-Kóreu voru handtekin í gær en þau eru grunuð um að hafa svelt dóttur sína til bana á meðan þau léku sér í tölvuleikjum. Lík stúlkunnar fannst þann 24. september í fyrra og leiddi krufning í ljós að dánarorsökin var langvarandi vannæring. Stúlkan var einungis þriggja mánaða gömul er hún lést. Hjónin hafa verið á flótta undan réttvísinni frá andláti barnsins.

Maðurinn, sem er 41 árs, og konan, 25 ára, kynntust á netinu árið 2008. Á sama tíma og dóttir þeirra svalt til bana voru þau að ala upp stúlku í sýndarveruleika netsins. Samkvæmt frétt Yonhap fréttastofunnar voru þau svo upptekin við tölvuleiki á netkaffihúsi að þau gáfu stúlkunni einungis eina máltíð á dag. Yfirleitt eyddu þau tólf klukkustundum á dag á netkaffihúsinu. Hét stúlkan þeirra á netinu Anima og var hluti af hlutverkjaleiknum Prius Online sem er vinsæll meðal þeirra sem spila tölvuleiki á netinu.

Undanfarið hafa birst fréttir af netfíklum í Suður-Kóreu. Til að mynda lést 32 ára karlmaður þar í landi í síðasta mánuði eftir að hafa spilað tölvuleik í fimm sólarhringa nánast sleitulaust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka