Páfagarður gagnrýnir fjölmiðla harðlega

Páfagarður gagnrýnir fjölmiðla harðlega vegna ásakana sem hafa birst á hendur Benedikt Páfa. Hann er sakaður um að hafa ekkert aðhafst í máli bandarísks prests, sem er sakaður um að hafa misnotað 200 heyrnarlausa drengi kynferðislega.

Í leiðara dagblaðs Páfagarðs segir að ásakanirnar séu „auvirðilegar“ árásir á Páfa og að ekki sé verið að hylma yfir neinu. Frá þessu er greint á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Þar kemur fram að árið 1996 hafi skrifstofu Páfagarðs, sem Joseph Ratzinger - sem nú er þekktur sem Benedikt páfi - stýrði, borist kvartanir frá erkibiskupum vegna prestsins Lawrence Murphy. Svo virðist sem að þeim hafi ekki verið svarað.

Eitt fórnarlamba prestsins segir í samtali við BBC að páfinn hafi vitað af yfirhylmingunni í áraraðir. Arthur Budzinski, sem er 61 árs gamall, segir að Benedikt páfi eigi að leggja spilin á borðið og segja frá því sem hann vissi.

„Þetta nær alla leið til hans. Hann hélt utan um svona mál,“ segir Budzinski.

Séra Murphy naut mikilla vinsælda, en hann er hins vegar grunaður um að hafa misnotað um 200 unga pilta við St. John's heyrnleysingjaskólann í Wisconsin. Þetta á að hafa gerst á milli 1950 til 1974.

Samkvæmt kirkjugögnum skrifaði erkibiskup til eftirlitsstofnunar á vegum Páfagarðs árið 1996 til að kvarta undan Murphy. Joseph Ratzinger, sem þá var kardínáli, stýrði stofnuninni.

Fulltrúi kardínálans lét skipa kirkjurétt til að taka ákvörðun um framtíð prestsins. Málið var hins vegar stöðvað, þrátt fyrir mótmæli annars erkibiskups.

Murphy sagði í bréfi, sem hann skrifaði Ratzinger, að hann væri veikur og að hann vildi ljúka ævinni virðulega.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert