Hjónabandið varð 13 ára stúlku að aldurtila

.
. Reuters

Hjónabandið kostaði 13 ára stúlku lífið í Jemen. Samkvæmt mannréttindasamtökunum Sisters Arab Forum for Human Rights blæddi stúlkunni út á fjórum dögum stutt eftir að hún giftist 23 ára gömlum manni í Hajja-héraðinu í norðausturhluta Jemen. Fjallað er um málið á vef danska dagblaðsins Politiken.

Eftir því sem fram kemur í sjúkraskrám frá al-Thawra sjúkrahúsinu hafði stúlkan rifnað illa í leggöngunum sem leiddi til þess að henni blæddi sem fyrr segir út á fjórum dögum.

Eiginmaður stúlkunnar hafði gert samkomulag við bróður hennar þess efnis að þeir skyldu hvor um sig giftast systur hins. Með þessu móti gátu þeir sparað sér það að greiða heimanmundinn.

Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu í Jemen eru 25% allra stúlkna í landinu seldar í hjónaband áður en þær fagna 15 ára afmæli sínu. Að sögn fréttaskýrenda eru margir íbúar landsins þeirrar skoðunar að ungar brúðir séu kostur því þá séu meiri líkur á að eiginkonan sé manni sínum undirgefin auk þess sem líklegra sé að hún nái að fæða fleiri börn. Jafnframt telja íbúar landsins að minni líkur séu á því að hægt sé að draga unga brúður á tálar. 

Ekki er nema ár síðan lögum í Jemen var breytt á þá leið að bannað var selja stúlkur yngri en 17 ára í hjónaband. Lagabreytingin mætti hins vegar svo mikilli andstöðu að stjórnvöld sáu sig knúna til þess að nema þau úr gildi. Að mati þeirra sem gagnrýndu lögin samrýmdust þau ekki íslam.

Stjórnvöld í Jemen hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir barnagiftingarnar í landinu. Fyrir þremur árum krafðist átta ára stúlka þess að fá skilnað frá manninum sínum sem var á þrítugsaldri. Öllum að óvörum vann hún málið. Síðan þá hafa reglulega borist fréttir af barnabrúðum og  óförum þeirra. Í september sl. lést til að mynda 12 ára gömul stúlka af barnsförum, en fæðingin stóð yfir í þrjá sólarhringa.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka