Minnisblað breytir ekki ferðaáætlun páfa

Benedikt páfi.
Benedikt páfi. Reuters

Talsmaður Páfagarðs segir að minnisblað, sem var lekið í fjölmiðla, muni ekki hafa áhrif á heimsókn Benedikts páfa til Bretlands, sem er væntanlegur til landsins í september. Minnisblaðið hefur vakið mikla athygli en svo virðist sem bresk stjórnvöld séu að hæðast að kaþólsku kirkjunni.

Breska utanríkisráðuneytið hefur beðist afsökunar á minnisblaðinu, sem það segir að hafa orðið til á hugmyndafundi. Þar er m.a. lagt til að páfi geti blessað hjónaband samkynhneigðra eða opnað stofu fyrir fóstureyðingar, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Fram hefur komið í breskum fjölmiðlum að skv. heimildarmönnum í Páfagarði sé óvíst hvort verði af heimsókninni. Talsmaður Páfagarðs, Federico Lombardi, segir hins vegar að málinu sé lokið af þeirra hálfu.

Lombardi segir að atvikið muni ekki hafa nein áhrif á heimsókn páfa, sem verður í Bretlandi frá 16.-19. september nk.

Breska utanríkisráðuneytið heldur því fram að ungur starfsmaður hafi skrifað niður umrædda punkta. Þetta sé bæði barnalegt og ruddalegt. Þetta endurspegli ekki skoðanir ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert