Gæti orðið eitt versta mengunarslys í sögu Bandaríkjanna

Yfirmaður hjá bandarísku strandgæslunni, sem stýrir aðgerðum vegna olíuleka frá sokknum borpalli á Mexíkóflóa, sagði í kvöld að takist ekki að loka borholunni gæti eitt mesta mengunarslys í bandarískri sögu verið í uppsiglingu. 

„Ég ætla að segja það hreint út. Tilraunir BP til að loka lindinni hafa ekki tekist," sagði Mary Landry, aðmíráll, á blaðamannafundi.  Hún neitaði að bera olíulekann saman við mengunarslysið árið 1989 þegar olíuskipið Exxon Valdes strandaði í Alaska en sagði: „Ef við náum ekki að loka lindinni þá verður þetta einhver umfangsmesti olíuleki í sögu Bandaríkjanna." 

Olíuflekkurinn frá svæðinu þar sem borpallurinn er, er nú í 33 km fjarlægð frá strönd Louisiana og stjórnvöld segjast vera að íhuga að reyna að kveikja í olíu, sem tekist hefur að einangra í girðingum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert