Átak sem gert var til að auka umskurði karla af Zulu ættflokknum í Suður-Afríku hefur reynst áhrifaríkt í baráttunni við útbreiðslu HIV veirunnar. Að sögn heilbrigðisyfirvalda í landinu hafa 17.690 Zulu menn verið umskornir síðan átakinu var hleypt af stokkunum fyrr á þessu ári og reyndust 99,5% þeirra neikvæðir í HIV prófi.
Ráðist var í átakið eftir að konungur Zulu ættbálksins, Goodwill Zwelithini, kallaði eftir því að hefðin yrði endurvakin meðal ungra Zulu manna til að stemma stigu við alnæmi. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að með því að umskera karlmenn megi draga úr líkunum á því að þeir smitist af HIV veirunni um allt að helming. Áætlað er að um 5,7 milljónir Suður-Afríkumanna séu smitaðir af HIV.
KwaZulu Natal, heimahérað Zulu þjóðarinnar, er það svæði Suður-Afríku sem verst hefur farið út úr alnæmisfaraldrinum. Rannsókn sem gerð var árið 2008 leiddi í ljós að 38,7% allra þungaðra Zulu kvenna voru smitaðar af HIV, sem er 9,4% hærra en meðaltíðni í Suður-Afríku.
Heilbrigðisráðherra Suður-Afríku segir nú að önnur héruð ættu að feta í fótspor KwaZulu Natal og gera átak í umskurði. „Ekkert annað hérað hefur ná viðlíka árangri. Ég er mjög ánægður og vil hvetja önnur héruð til að taka upp þessa aðferð." Umskurður tíðkaðist meðal Zulu manna allt fram til upphafs 19. aldar, þegar þáverandi konungur, Shaka, lagði siðinn af vegna þess að hann þýddi að ungir stríðsmenn þurftu að draga sig í hlé um stund við aðgerðina.