Bandaríkjamenn hafa nú svarað Norðmönnum og ásökunum sjónvarpsstöðvarinnar Tv2 um að bandaríska sendiráðið í Osló hafi haft leynilegt eftirlit með hundruðum Norðmanna síðustu ár. Segja Bandaríkjamenn fréttaflutninginn rangan og að eftirlitinu hafi ekki verið beint gegn Noregi eða Norðmönnum.
„Okkur þykir miður að rangur fréttaflutningur um öryggisáætlun utanríkisráðuneytisins hafi valdið slíkum áhyggjum og óróa meðal vina okkar," segir í opinberri yfirlýsingu frá bandaríska sendiráðinu, sem Aftenposten greinir frá. Sendiráðið segir að hin svokallaða eftirlitssveit (Surveillance Detection Unit) sé ekki leynileg né snúist hún um njósnir, heldur hafi henni verið komið á í kjölfar árásanna á sendiráðin í Naíróbí og Dar es Salaam árið 1998, með því markmiði að gæta að öryggi sendiráða.
„SDU er ekki beint gegn gestgjöfum okkar eða borgurum landsins. Henni er aðeins ætlað að greina grunsamlegt atferli í nágrenni sendiráðsins," segir í yfirlýsingunni. Þar er einnig ítrekað að Norðmenn séu nánir vinir og bandamenn Bandaríkjanna og að Bandaríkjamenn í landinu fylgi norskum lögum í hvívetna. Óvíst er hvort yfirlýsing sendiráðsins hefur áhrif á lögreglurannsókn, sem sett var af stað vegna ásakana norsku sjónvarpsstöðvarinnar. Sömu ásakanir komu í kjölfarið fram í Danmörku. Danska dómsmálaráðuneytið hefur ekki viljað tjá sig um hvort fótur sé fyrir þeim.
Utanríkisráðuneytið á Íslandi sagði í gær að kannað yrði hvort bandaríska sendiráðið á Íslandi hafi haft sambærilegt eftirlit með íslenskum þegnum og þá hvort það hafi verið gert í samráði við íslensk stjórnvöld. Laura Gritz, talsmaður bandaríska sendiráðsins á Íslandi, sagði í yfirlýsingu í gær að bandarísk yfirvöld veiti ekki nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið sé að öryggismálum.
Gritz segir að bandarísk yfirvöld geri allt sem í þeirra valdi standi, þá í samstarfi við innlend yfirvöld, til að verja starfsstöðvarnar og starfsmenn, bæði Bandaríkja- og heimamenn.