Kristnir menn í Írak ættu að yfirgefa landið hið fyrsta vilji þeir ekki horfa fram á að verða myrtir af Al-Qaeda. Þetta segir íraski erkibiskupinn Athanasios Dawood í viðtali við BBC. „Ef þeir verð um kyrrt þá verða þeir drepnir, einn af öðrum," segir Dawood sem gerði málið fyrst að umtalsefni við messu í sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni í London.
Í síðustu viku lýstu hryðjuverkasamtökin Al-Qaeda því yfir að kristnir menn um allan heim væru „löggild skotmörk". Segjast samtökin bera ábyrgð á gíslatöku í dómkirkju í Baghdad í síðustu viku sem endaði með blóðbaði þegar yfir 50 manns, safnaðarbörn, prestar og lögreglumenn, voru myrt. „Fólkið okkar í Írak býr við hættu. Það hefur enga vernd, engan stuðning, engan sem gætir þeirra," hefur BBC eftir Dawood, sem sjálfur er búsettur í London.
„Hvort er vænlegra fyrir okkur, að vera um kyrrt og vera drepin, eða að flytja til annarra landa til að geta lifað þar í friði?" Dawood biðlaði til landa Evrópusambandsins um að veita kristnum flóttamönnum frá Írak hæli.