Ríkasta fjölskylda Bretlands dæmd fyrir misnotkun

Fjórir innan Hinduja-fjölskyldunnar hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir misnotkun …
Fjórir innan Hinduja-fjölskyldunnar hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir misnotkun á starfsfólki. AFP/Gabriel Monnet

Svissneskur dómstóll hefur dæmt fjóra innan ríkustu fjölskyldu Bretlands, Hindujas-fjölskyldunnar, fyrir að misnota starfsmenn sína á heimili fjölskyldunnar. 

Fjölskyldan var sýknuð af ákæru um mansal en fundin sek um önnur brot, en dómurinn var kveðinn upp í dag.

Prakash Hinduja og eiginkona hans, Kamal Hinduja, voru dæmd í fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Sonur þeirra Ajay Hinduja og eiginkona hans, Namrata Hinduja, fengu bæði fjögurra ára fangelsisdóm.  

Gerðu vegabréf þjónanna upptæk

Fjölskyldan hafði verið ákærð fyrir að flytja inn þjóna frá heimalandi sínu, Indlandi, og fyrir að hafa gert vegabréf þeirra upptæk við komu þeirra til Sviss.  

Saksóknarar héldu því fram að fjölskyldan hefði greitt starfsfólki sínu lág laun og gefið þeim lítið frelsi til þess að yfirgefa húsið. 

Fjölskyldan náði sáttum utan dómstólanna við starfsmennina sem kærðu þau en vegna alvarleika málsins héldu saksóknarar áfram með málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert