Banna skammtímaleigu til ferðamanna

Mikið flæði af ferðamönnum veldur miklum vandræðum í Barcelona.
Mikið flæði af ferðamönnum veldur miklum vandræðum í Barcelona. AFP/Pau Barrena

Borgaryfirvöld í Barcelona hafa ákveðið að banna skammtímaleigu íbúða til ferðamanna. Þetta er gert vegna húsnæðisskorts og hækkandi húsnæðisverðs í borginni. Fari allt eftir áætlun mun bannið taka gildi árið 2029 en núgildandi leyfi renna út undir lok árs 2028. 

Um 10 þúsund leyfi hafa verið gefin út vegna skammtímaleigu í borginni en íbúðirnar sem um ræðir eru gjarnan bókaðar af ferðamönnum í gegnum vettvangana Airbnb og Homeaway. 

Einnig vandamál í París og Berlín

Borgarstjóri Barcelona, Jaume Collboni, segir mikinn uppgang í skammtímaleigu íbúða hafa valdið 68 prósent hækkun á leiguverði í borginni og sömuleiðis 38 prósent hækkun þegar kemur að húsnæðiskaupum. Með því að banna skammtímaleigu sé verið að ráðast á eitt stærsta vandamál borgarinnar. 

Barcelona er þó langt frá því að vera eina borgin sem hefur lent í vandræðum með skammtímaleigu til ferðamanna en það sama má segja um París og Berlín. Borgirnar þrjár hafa allar sömu sögu að segja, að skammtímaleiga ferðamanna ræni íbúa borgarinnar tækifæri til þess að fá langtímaleigusamninga, og hækki leiguverð á markaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert