„Konurnar voru verstar“

Loren Fitzgerald hefur marga fjöruna sopið, hóf herþjónustu á sextánda …
Loren Fitzgerald hefur marga fjöruna sopið, hóf herþjónustu á sextánda ári í varasveit bandaríska sjóhersins, US Navy Reserve, en var skömmu síðar kominn í þá nýstofnaða SEAL-sérsveitina og til Víetnam í stríð sem líður honum ekki úr minni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er staddur hérna í Kaupmannahöfn með vinafólki mínu, við erum að fara í siglingu með skemmtiferðaskipi sem hefst hér, ætlum að sigla til Skotlands og Írlands og endum svo hér aftur áður en við höldum heim til Bandaríkjanna.“

Svo segist Bandaríkjamanni á áttræðisaldri, Loren Fitzgerald, frá þar sem við sitjum í sólinni í bakgarði Wakeup Copenhagen-hótelsins við Borgergade í Kaupmannahöfn, steinsnar frá Kongens Nytorv í hjarta dönsku höfuðborgarinnar.

Fitzgerald á sér merkilega sögu og að sumu leyti blóðuga. Fyrir meira en hálfri öld skreið hann með snákum um leðjufyllt neðanjarðargöng í Víetnam á meðan Bandaríkjaher háði hildina við Þjóðfrelsishreyfingu Suður-Víetnam, Viet Cong, sem barðist fyrir sameiningu hins skammlífa suðurríkis við kommúnistaríkið Norður-Víetnam.

Faðirinn barðist með Patton

Fitzgerald fékk einna fyrstur manna inngöngu í þá nýstofnaða SEAL-sérsveit bandaríska sjóhersins árið 1966 og barðist undir merkjum hennar í Víetnam þangað sem hann hélt tvívegis í víking og beið þess aldrei bætur. Þegar hann sneri heim til fósturjarðarinnar í losti, og tók að glíma við áratugi áfallastreituröskunar, beið hans það hlutskipti að vera kallaður barnamorðingi á götum heimaborgarinnar San Francisco auk þess sem hrækt var í andlit hans.

Fitzgerald er merktur ferli sínum í bak og fyrir, peysan …
Fitzgerald er merktur ferli sínum í bak og fyrir, peysan ber einkennismerki SEAL-sveitarinnar en er merkt UDT/SEAL þar sem Fitzgerald náði að starfa innan forverans Underwater Demolition Team sem sett var á fót í síðari heimsstyrjöldinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hermaðurinn aldni, sem tilheyrir hinni fimmtu af sex kynslóðum hermanna í sinni ætt, féllst á að segja mbl.is sögu sína að loknum morgunverði á hótelinu síðustu helgi. Styttist í siglingu og brottför föruneytis hans af gististaðnum, en við höfum 50 mínútur og Fitzgerald er tilbúinn að láta þær af hendi. Hann hefur ekki talað mikið um sumt af því sem hér fer á eftir.

„Núna eru tíu ár síðan ég fór á eftirlaun en ég er ekki hættur að vinna, við rekum limúsínuþjónustu í Las Vegas en eftir að ég lét af herþjónustu starfaði ég mikið við lífvörslu og öryggisgæslu vegna reynslu minnar. Langafi minn barðist í borgarastríðinu, ég átti skyldmenni á báða bóga þar, í her Suðurríkjasambandsins og norðan megin, pabbi barðist með [George S.] Patton hershöfðingja í síðari heimsstyrjöldinni,“ segir Fitzgerald frá.

Lyftingar og karate forskot

Sjálfur fékk hann inngöngu í varalið sjóhersins, United States Navy Reserve, fimmtán og hálfs árs gamall og lauk grunnþjálfun sextán ára. „Ég hafði töluvert forskot þar sem ég hafði lokið gagnfræðanámi og lagt stund á lyftingar og karate, það reyndist mér góður bakgrunnur,“ segir Fitzgerald frá.

Hann þótti einnig liðtækur sundmaður sem opnaði honum leið inn í sveit sem var hálfgerður forveri SEAL-sérsveitarinnar og kallaðist UDT, Underwater Demolition Team, sett á fót í síðari heimsstyrjöldinni til að vinna skemmdarverk á mannvirkjum neðansjávar eða í ám auk þess að koma fyrir sprengjuhleðslum á skipum og hvers kyns sjóförum óvinaherja.

Sem fyrr segir hlaut Fitzgerald inngöngu í SEAL-sveitina árið 1966 en þessi nafntogaða sérsveit bandaríska sjóhersins leit dagsins ljós formlega árið 1962. Var hann fljótlega upp úr því munstraður á LST sem er Landing Ship, Tank, blaðamaður hendir með naumindum reiður á skammstafanaflóðinu sem vellur nær viðstöðulaust upp úr gömlu kempunni.

Er þar um að ræða skip sem er þeirrar náttúru að geta siglt upp að strönd og skilað skriðdrekum og hvers kyns ökutækjum í land tafarlaust – mun burðugra farartæki en landgönguprammarnir sem skiluðu fótgönguliðum upp á strendur í síðari heimsstyrjöldinni.

Dreginn fyrir herrétt

„Þetta voru ekki stór skip, áhöfnin var tíu manns að yfirmönnum meðtöldum, sem þýddi að allir urðu að vinna og við vorum alltaf að vinna,“ segir Fitzgerald. „Við sigldum frá Fíladelfíu, fyrir Horn Afríku og til Víetnam,“ rifjar hann upp og nefnir þar ekki nema brot siglingarinnar þar sem hún spannaði Atlantshafið, allt Miðjarðarhafið, Súesskurðinn, Rauðahafið, Adenflóa, Arabíuhaf, Suður-Kínahaf og að lokum áfangastaðinn.

„En ég gat líka verið fljótur að koma mér í …
„En ég gat líka verið fljótur að koma mér í vandræði,“ segir Fitzgerald og brosir í kampinn. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

„Við sigldum til Cam Rahn-flóa í Víetnam, ég tilheyrði sérstökum hópi SEAL-sveitarinnar sem sérstaklega var komið á laggirnar fyrir þessa ferð sem var fyrri ferðin mín til Víetnam, ég var yngstur í hópnum,“ segir Fitzgerald og augu, sem séð hafa inn í helvíti, hvarfla andartak til himins á meðan löngu horfnir dagar hinnar umdeildu þátttöku Bandaríkjamanna í átökunum í Víetnam fara um hugskot hans.

Hann þótti snemma úrræðagóður og fljótur að leysa verkefni sem ásamt sundhæfileikum hans greiddu leið hans inn í sérsveitina. „En ég gat líka verið fljótur að koma mér í vandræði,“ segir Fitzgerald og brosir í kampinn áður en hann segir frá orðasennu við yfirmann hans í varaliði sjóhersins sem olli því að hann var dreginn fyrir herrétt.

„Þá var komið með mig í handjárnum um borð eftir einhverja vitleysu og hann las mér pistilinn. Ég sagði honum að taka hattinn sinn og troða honum upp í [...] á sér og var svo dreginn fyrir herrétt,“ segir sérsveitarmaðurinn af atviki sem auðveldlega hefði getað kostað hann allan þann feril sem svo varð. Hann átti hins vegar hauk í horni og yfirmaður í SEAL-sveitunum talaði máli hans. „Það var sá sem fékk mig svo til að sækja um þar.“

Segðu mér örlítið frá Víetnam.

„Ég get sagt þér þetta: Það var helvíti,“ segir Fitzgerald og lítur í augu blaðamanns. Hér fylgir hugur máli. „Hausinn á mér var í henglum þegar ég kom heim úr seinni túrnum, ég fékk áfallastreituröskun og ég þurfti að berjast í 50 ár fyrir því að fá bætur. Stjórnvöld settu stólinn fyrir dyrnar eins og þau mögulega gátu, allar málsástæður voru dregnar í efa og allt tafið,“ segir hann frá.

„Þessi maður er í rúst“

Fitzgerald sat fjölda námskeiða og svo mikla aðstoð sérfræðinga þáði hann í heildina, að hann hefur ekki hugmynd um hve margir tímarnir voru. „Loksins lenti ég hjá ráðgjafa sem var í þannig stöðu að á hann var hlustað. Hann gaf út vottorð þar sem álit hans var í stuttu máli þetta: „Þessi maður er í rúst.“ Andlegu áföllin eftir stríðið sjálft voru eitt en ég fékk líka að finna fyrir áhrifum Agent Orange í mörg ár,“ segir hermaðurinn.

Á hann þar við þrávirka díoxín-eiturefnið sem úðað var í tugmilljónum lítra yfir átakasvæðin í Víetnam með það fyrir augum að eyða þéttum frumskóginum ofan af Viet Cong-skæruliðunum sem voru sérfræðingar í frumskógarhernaði og nánast ósigrandi í myrkviðunum sem bandarískir hermenn höfðu enga reynslu af.

Fitzgerald sneri heim frá Víetnam sem rjúkandi rúst, rétt eins …
Fitzgerald sneri heim frá Víetnam sem rjúkandi rúst, rétt eins og mörg þúsund aðrir bandarískir hermenn sem margra hverra beið aðeins það hlutskipti að veslast upp sem betlandi öryrkjar á götum amerískra stórborga – gleymdir þjóðinni sem þeir ætluðu sér umfram allt að þjóna meðan moldir og menn lifðu. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Agent Orange olli fjölda kvilla hjá þeim sem berskjaldaðir voru fyrir eitrinu, þar á meðal hvítblæði og eitilfrumukrabbameini auk vansköpunar ófæddra barna þeirra er fyrir urðu. Mat Rauða krossins var að um ein milljón Víetnama hefði sætt alvarlegri fötlun og veikindum af völdum efnisins en bandarísk stjórnvöld vísuðu þeim tölum á bug sem „óáreiðanlegum“.

„Við höfðum ekkert að gera í þetta stríð, við áttum ekki að vera þarna,“ segir Fitzgerald af stríðinu sem setti mark sitt á allt hans líf, fram til dagsins í dag.

„Gangarotta“ í völundarhúsi Viet Cong

Síðara skiptið hans í Víetnam var árið 1968 og þeirri reynslu gleymir Fitzgerald aldrei. „Ég var gangarotta [e. tunnel rat],“ segir hann og vísar til neðanjarðarganga Viet Cong sem nýtt voru í ýmsum tilgangi, meðal annars til að geyma vopn, matvæli og lyf. Sum þessara ganga voru mun eldri en stríðsátökin sem hófust árið 1955 milli Víetnam, Laos og Kambódíu, göng sem bandarískir hermenn tóku að uppgötva umhverfis Saigon árið 1966 voru þá þegar líklega um tveggja áratuga gömul.

Göngin voru flest einföld að gerð og var auðvelt að fella þau saman með sprengihleðslum í leirkenndum jarðveginum. Þau lengstu voru mörg hundruð metra löng og rúmuðu heila heri sem farið gátu algjörlega huldu höfði – jafnvel um lengri tíma – svo sem berlega kom í ljós í Cu Chi þar sem Bandaríkjamenn byggðu stórar herbúðir ofan á umfangsmiklu gangakerfi.

Neðanjarðargöng Viet Cong voru í grunninn einföld að gerð, en …
Neðanjarðargöng Viet Cong voru í grunninn einföld að gerð, en þaulhugsuð, gátu geymt vistir og vopn auk þess sem fjöldi skæruliða gat farið þar um algjörlega huldu höfði. Teikning/Bandaríkjaher

„Að fara þarna niður var algjör martröð,“ heldur gangarottan Fitzgerald áfram en sérsveitarmenn voru sendir niður í göngin á eftir Viet Cong-liðum til að koma þeim fyrir kattarnef eða hreinlega sprengja göng saman þannig að skæruliðarnir lokuðust inni að eilífu.

Í hreistruðum félagsskap

„Þetta var svo þröngt að ein manneskja rétt gat skriðið þarna um og svo fylltu Viet Cong-liðar göngin af gildrum því þeir vissu að við kæmum á eftir þeim,“ segir Fitzgerald frá og er þó enn ekki kominn að hjarta hryllingsins.

„Og snákar. Ég er svo hræddur við snáka og sum göngin voru hálffull af gruggugu vatni þar sem snákar svömluðu um. Ég gleymi því aldrei þegar ég var á ferð í einum göngunum, rétt með ljóstíru til að sjá fram fyrir mig, og þá kemur stór snákur svamlandi á móti mér. Þetta var hryllingur. Ég gat ekki snúið mér við, að bakka tók heila eilífð og svo var hann kominn alveg að mér og synti á mig. Þarna var ég alveg skelfingu lostinn,“ segir hermaðurinn en nær þó að brosa út í annað...svona vel rúmlega 50 árum síðar.

Fitzgerald segir engu logið á Viet Cong, skæruliðarnir sem börðust …
Fitzgerald segir engu logið á Viet Cong, skæruliðarnir sem börðust fyrir sameiningu Suður- og Norður-Víetnam í eitt kommúnistaríki hafi verið þrautþjálfaðir hermenn – konurnar hafi þó verið verstar. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Voru Viet Cong-liðar þessar ægilegu bardagamaskínur sem upp á þá var hermt?

„Já, því máttu trúa. Þeir voru mjög hæfir – og ekki bara karlmennirnir. Konurnar voru verstar. Þær voru svo eiturgrimmar, svifust einskis. Með þessa sovésku AK-47-riffla í höndunum var þessi óvinur gríðarsterkur. Við áttum ekkert svar við þessum skotkrafti með því sem við vorum með í höndunum inni í skóginum,“ svarar Fitzgerald.

„Við vorum heima hjá okkur“

„Við skildum mörg þúsund manns eftir í Víetnam, tilgangsleysið var fullkomið,“ heldur hann áfram en samkvæmt opinberum tölum bandarískra stjórnvalda fórust 58.220 bandarískir hermenn í Víetnam. „Við komum heim og fólk hrækti í andlitið á okkur úti á götu og kallaði okkur barnamorðingja. Við vorum heima hjá okkur, hugsaðu þér það,“ segir hermaðurinn sem eitt sinn missti þolinmæðina og sló mann niður á götu í San Francisco í kjölfar slíks atviks.

Hann gekk í lögregluna í San Francisco eftir heimkomuna úr stríðinu og sinnti síðar öryggisgæslu, mest kringum stjórnmálamenn og frambjóðendur. Nú tilheyrir hann vélhjólaklúbbnum Warriors' Watch Riders sem fyrrverandi hermenn skipa og færleikurinn getur að sjálfsögðu aðeins verið af ætt og kyni Harley-Davidson. Nema hvað?

Spjallið fer víða í garði hótelsins danska og mínútunum 50 fækkar ört. Ár viðmælandans við herþjónustu voru líka 50 – þann tíma taldist hann gegna því sem kallast „active service“, frá 15 til 65 ára aldurs ef allt er talið, frá fyrsta degi hans sem US Navy Reserve, um það leyti sem John F. Kennedy var skotinn til bana í Dallas.

Fimmtíu mínútur voru ekki langur tími fyrir sagnabrunninn frá San …
Fimmtíu mínútur voru ekki langur tími fyrir sagnabrunninn frá San Francisco og skilaði þó ekki nema hluti frásagnar hans sér í það viðtal sem hér birtist. Fitzgerald kveður og heldur til skips – að þessu sinni er förinni þó ekki heitið til Cam Rahn-flóa í Víetnam með þrautþjálfaðri sérsveit. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Tíminn á þrotum

Við ræðum um íhlutun Bandaríkjamanna í Írak, Donald Trump, glæsibílaleiguna í Las Vegas og heimsókn Fitzgerald til Hawaii þar sem sá atburður varð sem dró Bandaríkjamenn inn í síðari heimsstyrjöldina á nokkrum klukkustundum – árás Japana á Pearl Harbor 7. desember 1941.

Tími kempunnar öldnu er á þrotum. Komið að siglingu til Bretlandseyja. Við Loren Fitzgerald kveðjumst með handabandi eftir fróðlega frásögn og einstaka innsýn.

Hann hikar andartak áður en hann ræskir sig og segir: „Veistu, mér fannst bara gott að fá tækifæri til að ræða þennan tíma, sérstaklega Víetnam. Ég hef ekki talað um þetta við mjög marga um dagana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert