Assange mættur fyrir rétt á Maríanaeyjum

Julian Assange er 52 ára.
Julian Assange er 52 ára. Ljósmynd/AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks er mættur fyrir rétt á Norður-Maríanaeyjum þar sem mál hans mun frá lokameðferð.

Eins og fram hefur komið mun Assange verða frjáls maður gegn því að viðurkenna samsæri fyrir birtingu trúnaðargagna. Verður hann dæmdur í fimm ára og tveggja mánaða fangelsi sem er sá tími sem hann hefur verið í haldi í öryggisfangelsi á Englandi.

Þetta er liður í sátt sem hann gerði við yfirvöld í Bandaríkjunum til að komast hjá framsali.

Er honum í framhaldinu ekkert að vanbúnaði að halda til heimalands síns, Ástralíu.

Ekki sannfærð fyrr en á síðustu stundu 

Assange mætti svartklæddur í jakkafötum og virtist við góða heilsu. 

Eiginkona Assange, Stella, segir í samtali við BBC að þau hafi ekki verið sannfærð um að þetta væri raunverulega að gerast fyrr en fyrir um sólarhring.

Norður-Maríanaeyjar voru valdar sökum þess að Assange var ekki tilbúinn að fara til meginlands Bandaríkjanna til að mæta fyrir rétt.

Assange fámáll

Assange var fámáll þegar fréttamenn reyndu að ná tali af honum. Svaraði því einungis játandi að honum líkaði betur við veðrið í Saipon á Norður-Maríanaeyjum en í Lundúnum.

Assange fer svo beinustu leið til Ástralíu en þarlend yfirvöld hafa gefið það út að ekkert fengist úr því að halda Assange á bak við lás og slá.

Málið hefur farið misjafnlega ofan í þjóðrækna Bandaríkjamenn og Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, sagði á X að niðurstaðan væri óviðunandi fyrir réttlætið og vanvirðing við hermenn og konur í bandaríska hernum.

Dvaldi sjö ár í sendiráðinu 

Tilkynningin um samkomulag kom tveimur vikum áður en Assange átti að koma fyrir rétt í Bretlandi þar sem framsalsáfrýjun hans átti að vera tekin fyrir.

Assange hefur verið í öryggisfangelsi í Belmarsh í Lundúnum frá árinu 2019. Var hann handtekinn eftir að hafa dvalið í sjö ár í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

Það efni sem birtist fyrir tilstilli WikiLeaks og fór hvað mest fyrir brjóstið á Bandaríkjamönnum sýndi almenna borgara Í Írak falla í skotárás hersins árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert