Mark Rutte tekur við af Stoltenberg

Mark Rutte tekur til starfa 1. október af Jens Stoltenberg.
Mark Rutte tekur til starfa 1. október af Jens Stoltenberg. AFP/Remko de Waal

Öll 32 aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa samþykkt að gera Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, að framkvæmdastjóra NATO.

Mark Rutte var sá eini sem sótti um stöðuna í kjölfar þess að Klaus Iohannis, for­seti Rúm­en­íu, dró um­sókn sína til baka. Tekur hann við stöðunni af Jens Stoltenberg 1. október.

Sannur stuðningsmaður NATO

„Ég fagna því innilega að bandalagsríki NATO hafi valið Mark Rutte sem eftirmann minn. Mark er sannur Atlantshafsbandalagssinni, sterkur leiðtogi og samstöðumaður,“ sagði Stoltenberg á samfélagsmiðlum eftir að sendiherrar NATO samþykktu skipunina.

„Ég veit að ég er að skilja við NATO í góðum höndum,“ bætti hann við.

Stærsta verkefnið er Úkraína

Hollendingurinn, sem hefur verið forsætisráðherra í 14 ár og lýkur því embætti á næstu vikum, er af mörgum talinn vera traustur kostur til að stýra bandalaginu í gegnum erfiða tíma.

Stærsta verkefni hans þegar hann tekur til starfa verður vafalaust að tryggja áframhaldandi stuðning NATO-ríkja við Úkraínu, sem verst áfram innrás Rússlands.

Þá eru margir sem fylgjast með því hvort að áherslubreytingar verði af hálfu Bandaríkjanna gagnvart stríðinu og NATO ef Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, verður kjörinn forseti aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert